140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:25]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni málefnalegt svar. Ég tel að við séum á sömu blaðsíðu í þessu efni. Við þurfum að horfa til fjölþættrar erlendrar fjárfestingar á sem flestum sviðum til að hjálpa okkur við uppbyggingu atvinnulífs. Þegar kemur að ferðaþjónustunni held ég að við þurfum að horfa til þeirrar framtíðar að auka og bæta dreifingu erlendra ferðamanna yfir árið og yfir landið, nýta betur þau svæði sem eru minnst notuð, t.d. á norðanverðu landinu, Vestfjörðum, Austfjörðum, ef til vill inn til hálendisins líka, vegna þess að álag á örfáa ferðamannastaði er, eins og við þekkjum hér í þessum sal, allt of mikið á meðan við nýtum önnur svæði mun minna og jafnvel svo að segja ekkert þegar kemur að erlendum ferðamönnum.

Við þurfum hins vegar að fara með gát í þessum efnum. Ég er sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að ef til vill fer ekki vel á því að selja útlendingum stóra hluta úr landi, hvort heldur er Kínverjum, Norðmönnum eða fólki hvaðan sem er úr heiminum. Það er hins vegar allt annað þegar kemur að því að leigja þeim hluta úr landi til ákveðins tíma.

Þegar kemur að erlendri fjárfestingu höfum við í flestum tilvikum horft til hennar vegna fyrirtækja, menn kaupa sig inn í ákveðin fyrirtæki eða framleiðsluferli eða annað slíkt, en þegar kemur að þáttum er varða landið okkar og jafnvel stórir hlutar af því eru til sölu kveður við annan tón. Ég spyr: Hvaða varnagla vill hv. þingmaður slá þegar kemur að erlendri fjárfestingu á landi? Eins og ég gat fyrr um í ræðu minni er sitt hvað að leigja land og selja það. Við sjáum hér dæmi um hluta úr mjög eftirsóttum ferðamannastöðum sem eru lokaðir Íslendingum. (Forseti hringir.) Nægir þar að nefna stóran hluta úr landi Mýrdals.