140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mjög áhugavert mál en maður veltir því fyrir sér hver sé alvaran á bak við það hjá hæstv. ríkisstjórn. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á er ekki hægt að sjá mikinn trúverðugleika í þessu og maður veltir fyrir sér hvort hér sé enn eitt sýndarmálið á ferðinni og hvort einhver alvara liggi á bak við það. Það þarf svo sem ekki annað en lesa markmiðin í þessari ágætu þingsályktunartillögu um hvernig beri að stefna að beinni erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi til að fara að efast um viljann. Hér stendur að það eigi að stuðla að fjölbreytni atvinnulífs, styðja við verndun og nýtingu umhverfis á sjálfbærum grunni, nýta nýjustu tækni, skapa í gegnum framleiðsluferli sem mestan virðisauka innan lands, skapa hlutfallslega eins mörg störf og mögulegt er og hátt hlutfall verðmætra starfa, stuðla að eflingu rannsókna, þróunar og öflun nýrrar þekkingar, leita eftir arðsemi og hlutfallslega miklum skatttekjum og skapa ný tækifæri eða tækifæri sem talin eru æskileg til að styrkja innlenda starfsemi sem fyrir er.

Síðan horfum við á það hvernig hefur verið staðið að þessum málum hjá okkur á síðustu árum. Hér hefur skattumhverfið verið mjög ótryggt. Fyrirtæki hafa ekki getað gengið að skattumhverfi sínu vísu á milli ára. Við sjáum hvaða hugmyndirnar eru uppi núna um skatta á sjávarútveginn. Loksins þegar koma góð ár í sjávarútvegi þar sem væri gott fyrir fyrirtækin að byggja upp eiginfjárstöðu sína, stunda meiri fjárfestingar, rannsóknir og uppfylla í raun flest markmiðin sem hér eru sett, kemur ríkiskrumlan með sína óseðjandi skattafíkn og vill fá stóran hluta af arðinum.

Við sjáum hvernig komið er fram við álverin og rekstur þeirra. Það var gerður við þau þriggja ára samningur um fyrir fram greiddan skatt vegna þeirra efnahagsáfalla sem við urðum fyrir. Nú eru uppi hugmyndir hjá ríkisstjórninni um að framlengja það einhliða. Erlend stórfyrirtæki voru spurð: Eruð þið tilbúin að borga okkur fyrir fram ákveðinn skatt til þriggja ára til að hjálpa okkur út úr þessu? Við þau var gert samkomulag og þau tóku þátt í uppbyggingu eftir hrunið með þessum hætti og nú á bara að ganga enn lengra.

Við sjáum hvað gerðist á Bakka þegar viðræðurnar við Alcoa voru búnar að ganga fram og til baka. Það fylgdi enginn hugur máli af hálfu stjórnvalda. Alcoa gaf ítrekað út yfirlýsingar um að þeir vildu byggja upp alvöruatvinnustarfsemi þar en á endanum gáfust þeir upp á samskiptum við yfirvöld og gáfu út þá yfirlýsingu að þeir væru farnir annað sem þeir og gerðu. Þeir fóru í þessar framkvæmdir annars staðar í heiminum. Við erum nefnilega ekki ein á þessum velli. Hvað gerðist þá? Þá klöppuðu stjórnarliðarnir í þingsal. Þeir klöppuðu fyrir því að bein erlend fjárfesting var að fara frá landinu. Svo kemur hér tillaga til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu og hvernig við getum hvatt til slíkrar fjárfestingar, hvernig við getum laðað hingað erlend áhugaverð fyrirtæki í þeim tilgangi að byggja upp áhugaverða atvinnustarfsemi á Íslandi, skapa verðmæti og útflutningstekjur. En þegar þau hverfa þá er klappað í þingsal. Þetta hlýtur að leiða hugann að því, virðulegi forseti, hver alvaran sé á bak við svona plagg, hvort hér sé ekki enn og aftur um sýndarmennsku að ræða þar sem enginn hugur fylgir máli. Vilja þeir ríkisstjórnarflokkar sem standa á bak við þessa þingsályktunartillögu beina erlenda fjárfestingu? Mér er það til efs því hún verður þá að snúast um, eins og oft er sagt, „eitthvað annað“ en það sem hingað til hefur verið rætt um.

Allt skapar þetta mikla óvissu sem fælir erlenda fjárfesta frá landinu í stað þess að hvetja þá til að koma hingað. Þetta skapar gríðarlega óvissu og skekkir alla samkeppnisstöðu okkar gagnvart þeim löndum sem gera þetta af miklu meiri heilindum, standa að svona stefnu með heilindum, skipuleggja sig og undirbúa sig með það í huga að ætla að standa sig vel þegar kemur út í þá baráttu sem er um að laða erlenda fjárfestingu til landsins til að byggja upp verðmætasköpun og atvinnustarfsemi.

Svona er öll okkar saga í þessum málaflokki. Það er athyglisvert að lesa um þá baráttu sem hér fór af stað þegar orðið „stóriðja“ fór fyrst að bera á góma í umræðu um atvinnustarfsemi hérlendis. Við höfum verið háð sjávarútvegi. Einhæfni var í raun vandamál okkar. Sjávarútvegurinn eins og við þekkjum í gegnum tíðina er mjög sveiflukenndur. Fiskstofnarnir gefa mismikið af sér, markaðirnir eru í mismunandi ástandi eins og gefur að skilja og þrátt fyrir að okkur hafi gengið vel á því sviði var öllum ljóst að við urðum að auka á fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og fjölga þeim grunnstoðum sem byggja upp samfélag okkar. Þá var farið að horfa til virkjana og uppbyggingar stóriðju. Þá þegar var reynt að kasta rýrð á það orð og þeir sem eru andstæðingar orkufreks iðnaðar hafa á þessum áratugum, síðustu 40 til 50 ár, reynt að nota það sem hnjóðsyrði í íslensku máli, svo að það sé eitthvað ljótt að tala um stóriðju.

Við getum hugsað um hvað þetta orð stendur fyrir. Stóriðja er auðvitað bara iðnaður á stærri mælikvarða. Hvað leiðir slík starfsemi af sér? Við sjáum það best hvernig þróunin hefur verið í áliðnaðinum og á þeim klasa sem hefur myndast í kringum hann. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hvort sem eru verkfræðistofur, vélsmiðjur eða önnur fyrirtæki eru farin að framleiða og vinna á alþjóðavettvangi í þessum geira núna um 40 árum seinna. Þetta skapar okkur miklar tekjur og veitir íslensku ungu fólki sem vill mennta sig mikil tækifæri á því sviði. Þannig var þessi barátta og þegar maður les um sögu hennar má sjá að baráttan er nákvæmlega hin sama og í dag. Það er eiginlega hægt að taka afrit af fyrri baráttu og færa hana til dagsins í dag. Þess vegna er það svo ótrúverðugt að þessi þingsályktunartillaga skuli vera lögð fram af þessu sama fólki.

Það er verið að leggja grunn að lífskjarasókn. Sá grunnur var lagður þegar við fórum í að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og það hefur tekist sem raun ber vitni. Sem betur fer fyrir íslenska þjóð urðu þau öfl ofan á sem vildu beina erlenda fjárfestingu, vildu laða áhættufjármagn til landsins til að byggja upp stóriðju, vildu virkja orkuna í landinu til að byggja upp og bæta lífskjör og fá til samstarfs við okkur erlenda aðila. En þeirri baráttu er ekki lokið. Ég held að það hafi verið á síðasta ári sem fjárfestingarsvið Íslandsstofu lét Pricewaterhouse Coopers í Belgíu gera fyrir sig skýrslu þar sem metin var samkeppnisstaða Íslands í alþjóðlegu umhverfi í að laða beina erlenda fjárfestingu til landsins. Sú skýrsla gefur okkur ekki góða einkunn. Í fyrsta lagi er hér mikil pólitísk óvissa í landinu, óstöðugleiki og stefnuleysi. Það er óvissa í skattamálum fyrirtækja — þetta eru grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi. Það var komið inn á margt annað í skýrslunni eins og til dæmis skipulagsmál sveitarfélaga og bornar saman aðstæður hér við Svíþjóð og ákveðin svæði í Belgíu og Möltu en þetta eru allt saman lönd og svæði sem hafa leitað mjög eftir beinni erlendri fjárfestingu í atvinnulífi sínu.

Í kjölfar þessa var skipaður starfshópur og ákveðin markmið sett fram. Tækifærin eru klárlega til staðar. Tækifæri okkar til að stíga mjög stór skref í þessu eru sennilega miklu meiri en hjá mörgum öðrum þjóðum, stíga skref sem skapa raunverulegan hagvöxt sem er afrakstur framleiðslu og verðmætasköpunar en ekki tímabundinnar neyslu og verðlagsáhrifa eins og við sjáum kannski meira í dag. Það er auðvitað það sem við þurfum. Það skapar hin raunverulegu störf og verðmæti sem hagvöxtur hverrar þjóðar þarf að byggja á. Og í þeirri stöðu sem við erum núna þurfum við að ná í nokkur ár um 4–5% og helst 5% hagvexti til að ná okkur upp úr þeim hjólförum sem efnahagshrunið setti okkur í. Það er sagt að að jafnaði séu um 1.000 störf á bak við hvert 1% í hagvexti þannig að froðukenndur hagvöxtur eða of lítill hagvöxtur skapar ekki störf til lengri tíma eins og við þurfum.

Hvar skyldu tækifærin liggja? Þau liggja auðvitað í orkunni, vatninu og aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu. Við höfum sjávarútveginn sem mjög sterkan grunn þó að núverandi stjórnvöld reyni með öllum ráðum að veikja þann grunn, veikja þau fyrirtæki og hlusta ekki á þá sem betur til þekkja á þeim vettvangi, hvort sem það eru innlendir sérfræðingar, hagsmunaaðilar eða sveitarfélög í landinu. Það er hreint með ólíkindum og við höfum tekið þá umræðu hér. En við getum bætt við þessari fjölbreytni. Til þess þarf að taka ákvarðanir.

Landsvirkjun lagði fram á síðasta ári ákveðna framkvæmdaáætlun þar sem boðið er upp á valkosti um það hvert við stefnum í orkufrekum iðnaði. Sú framkvæmdaáætlun verður að hafa trúverðugleika sem stjórnvöld síðan samþykkja. Framkvæmdaáætlun sem mundi byggja á þessum grunni og væri samþykkt af stjórnvöldum til lengri tíma, eins og gert er ráð fyrir í þeirri áætlun til ársins 2030, getur haft gríðarleg áhrif á traust okkar erlendis og getur verið í raun eitt stærsta skrefið til að laða að beina erlenda fjárfestingu til landsins. Þá erum við búin að svara til dæmis þeirri spurningu hvenær orka verður fáanleg, á hvaða tíma og í hvaða magni. Þetta er algert grundvallaratriði. Það hefur komið fram hjá fulltrúum Íslandsstofu og fleirum sem hafa það verk með höndum að laða hingað erlenda fjárfesta að þeir hafa ekki getað gefið nein svör um þessi grundvallaratriði. Okkar fólk sem er í þessum störfum hefur ekki getað gefið nein svör um það sem eru alveg nauðsynleg til að menn viti að hverju þeir ganga. Svona stefna mundi eflaust líka hafa áhrif á lánakjör okkar, á lánshæfismat landsins. Þessi stefna felur í sér að virkja orkuna með skipulögðum hætti til nokkurra ára, fylgja framkvæmdaáætlun sem felur í sér, eins og kemur fram hjá Landsvirkjun, hátt í tvöföldun raforkuframleiðslunnar á 15–20 árum. Þetta er auðvitað eins og að virkja hverja aðra olíuauðlind, ef við tökum sem dæmi þjóð sem á olíuauðlindir og það á að fara í vinnslu á þeim. Ef til er orðin trúverðug áætlun um framkvæmdir hefur það auðvitað áhrif á lánshæfismat viðkomandi lands, trú manna á að fjárfesta og trú fjármálastofnana á alþjóðlegum vettvangi um að í landinu verði hagvöxtur og betri tækifæri og aðstæður til að fyrirtæki geti staðið við skuldbindingar sínar.

Áætlun sem þessi mun líka hvetja ungt fólk til menntunar. Fólk mun sjá tækifæri til menntunar til lengri tíma. Þetta mun ýta undir menntun í raunvísindum eins og við höfum sagt að þurfi að gera hér, það þurfi að efla og fjölga tækifærum fyrir nemendur á því sviði. Þetta er og mun verða stærsti möguleiki okkar til að efla samfélagið og þjóðfélagið sem við búum í, búa okkur til betra menntakerfi, betra heilbrigðiskerfi, vænlegra land og vænlegra þjóðfélag fyrir fjölskyldur að búa í. Við munum laða hingað að Íslendinga sem hafa flutt út til að koma aftur og starfa og sjá tækifærin fyrir sér og hafa trú á því að hér verði gott að búa.

En þá horfum við á það að hjá hinum sama hópi og leggur fram þessa tillögu um stefnu um beina erlenda fjárfestingu fylgir ekki meiri hugur máli en svo að í þeirri rammaáætlun sem liggur fyrir er enginn áhugi á að stíga þessi skref. Þar er haldið áfram á þeirri braut sem vörðuð hefur verið í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar á síðustu þremur, fjórum árum þar sem tækifærin eru látin fara hjá. Við getum kallað þessi ár ár hinna glötuðu tækifæra. Þetta er hinn dimmi raunveruleiki sem hvílir yfir þessum hugmyndum og gerir svo ótrúverðugt að hugur þeirra sem leggja þetta fylgi máli. Það er kannski varla pappírsins virði að eyða tíma okkar á Alþingi í að fjalla um þetta.

Í tillögunni er fjallað um hvernig hægt sé að efla beina erlenda fjárfestingu, hvað þurfi að gera til þess og hvernig ríkið geti komið að því. Rætt er um að fjölga starfsmönnum hjá Íslandsstofu, auka fjármagn til kynningar erlendis, ákveðnar breytingar þurfi að verða í sambandi við skipulagsvinnu, það þurfi að efla samstarf milli ríkis og sveitarfélaga og svo má lengi telja. Þetta er allt gott og gilt og þetta er allt hárrétt og í algeru samræmi við þá skýrslu sem Pricewaterhouse Coopers í Belgíu gerði fyrir Íslandsstofu og skilað var í hittiðfyrra. Þetta er allt í samræmi við hana

En til hvers að fjölga starfsmönnum og verja auknu fjármagni í þetta ef ekki á að búa til þann ramma og þær aðstæður og þá hvata sem þarf til að svona mál geti orðið að raunveruleika? Það er gott og blessað að setja þetta á blað en það er algerlega ástæðulaust að byrja á þeim enda þegar miklu heillavænlegra væri að sýna viljann í verki með því að skapa ákveðinn ramma og búa til framtíðarsýn, trúverðuga framtíðaráætlun um það hvernig við ætlum að byggja upp til dæmis orkufrekan iðnað. Þá mun hitt ekki láta standa á sér.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Íslandsstofu og annarra sem að þessum málum starfa hefur eftirspurnin aldrei verið meiri en á síðustu þremur, fjórum árum fyrir því að koma með beina erlenda fjárfestingu til Íslands. Það er staðreynd. En af því að þessi ríkisstjórn hefur skapað þá óvissu sem raun ber vitni í skattamálum og vegna framkomu hennar við erlenda fjárfesta sem hingað vilja koma hefur ekkert gerst. Ég minni aftur á það þegar þingsalur klappaði þegar Alcoa hvarf af vettvangi. Ég minni á yfirlýsingarnar um skattamálin gagnvart álfyrirtækjunum. Allt þetta gerir að verkum að enginn mun treysta stjórnvöldum. Í grunninn snýst þetta allt um góða sölumennsku og markaðssetningu. Við höfum vöruna, eftirsótta hágæðavöru. Eftirspurnin er miklu meiri en framboðið. En það er stefnuleysi og léleg markaðssetning sem ræður.

Ég vil vekja sérstaka athygli á síðustu blaðsíðunni í þessari þingsályktunartillögu þar sem farið er yfir ályktanir og niðurstöður (Forseti hringir.) í greinargerð Þórðar H. Hilmarssonar, forstöðumanns (Forseti hringir.) fjárfestingarsviðs Íslandsstofu. Hann slær þar hinn rétta takt í þessu máli.