140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun.

362. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Málið sem hér er um að ræða hefur, eins og fram hefur komið, fengið mikla umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd í vetur, fyrst fyrir áramót. Varð það niðurstaða meiri hlutans að afgreiða ákveðna gjaldtökuþætti þess fyrir jólin en geyma aðra þætti. Segja má að nefndin hafi tekið nýjan snúning á málinu í janúar og svo fram eftir vori en nefndarálit er frágengið 18. apríl eins og fram kemur hjá framsögumanni meiri hlutans, hv. þm. Þuríði Backman. Ég átti ekki aðild að því nefndaráliti, er ekki í þessum meiri hluta, og vildi skýra það örfáum orðum.

Ég vil fyrst taka fram að með þeim breytingartillögum sem lagðar eru til af hálfu meiri hlutans er vissulega komið til móts við ýmsar af þeim athugasemdum sem fram komu við meðferð málsins en sannast sagna mætti frumvarpið í heild töluvert harðri andstöðu frá þorra umsagnaraðila sem töldu of langt gengið á mörgum sviðum og ýmislegt væri óklárt í sambandi við framsetningu. Of langt væri gengið bæði í sambandi við gjaldtöku, í sambandi við heimildir CERT-hópsins og fleiri slíka þætti.

Staða málsins er sú að breytingartillögur varðandi þann þátt málsins sem er til afgreiðslu núna eru að jafnaði til bóta af hálfu meiri hlutans. Munar þar mestu að lagt er til að út úr frumvarpinu verði tekin þau ákvæði sem sneru að stjórnvaldsviðurlögum og refsingum og beðið er með þann þátt þar til búið er að vinna vandaðri vinnu við útfærslu þeirra ákvæða. Ég ætla ekki að fara djúpt í það en eins og fram hefur komið voru þessi ákvæði gagnrýnd harðlega, bæði hvað varðar innihald og framsetningu. Má segja að sú gagnrýni hafi verið tekin alvarlega með þeim hætti að tillagna um útfærslu viðurlagaákvæða sé beðið, þ.e. það verður tekið fyrir síðar og er þar af leiðandi ekki hluti af þessu frumvarpi þar sem meiri hlutinn leggur til að 10. og 11. gr., sem eru viðurlagagreinarnar, falli brott reyndar ásamt fleiri ákvæðum. Það er auðvitað jákvætt og skiptir máli varðandi afstöðuna til þessa máls.

Þingmönnum til skýringar vil ég geta þess að 10. gr. fjallar um refsingu og 11. gr. um stjórnvaldssektir. Þær voru ekki taldar fullnægjandi miðað við þær kröfur sem gerðar eru til viðurlagaákvæða í lögum, bæði hvað varðar skýrleika en líka varðandi það að gefinn væri upp rúmur viðurlagarammi gagnvart brotum sem í sumum tilvikum væru mjög veigalítil og í öðrum tilvikum veigamikil, og lítill greinarmunur gerður á því í sjálfu sér. Við getum orðað það á þann veg að nefndarmenn höfðu eðlilegar áhyggjur af því að um væri að ræða viðurlagaákvæði sem væru erfið í framkvæmd. Einnig er rétt að geta þess að skiptar skoðanir hafa verið um það að hvaða marki viðurlagaákvæði ættu að vera í lögum af þessu tagi og nokkuð af tíma nefndarinnar fór í að fjalla um mismunandi skilning annars vegar Póst- og fjarskiptastofnunar og hins vegar fjarskiptafyrirtækja á því hvernig réttarástandið væri í öðrum löndum. Það er of löng saga að fara út í það sérstaklega, það er umræða sem bíður síðari tíma og mun þá að öllum líkindum verða verkefni næsta þings að fjalla um þennan viðurlagaþátt. Við þurfum að taka afstöðu til þessa ágreinings, að hvaða marki eiga viðurlagaákvæði að vera í lögum af þessu tagi og hvernig þurfa þau að vera úr garði gerð til að þau standist ef á annað borð er um að ræða refsingar og stjórnvaldssektir í samræmi við þetta.

Ákveðnar athugasemdir standa eftir og er þar kannski frekar um að ræða spurningar sem ég vil varpa upp í þessari umræðu enda eru allra stærstu ágreiningsefnin kannski komin út fyrir dagskrána í dag. Ég vildi sérstaklega nefna að enn eru áhöld um hvort nægilega sé komið til móts við athugasemdir sem varða persónuverndarsjónarmið. Um það er að nokkru leyti fjallað í nefndaráliti meiri hlutans. Ef ég má lesa smákafla þaðan, þá segir þar á bls. 2 í 2. mgr.:

„Meiri hlutinn leggur til breytingar á 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem nánar er vikið að hér á eftir. Þar leggur meiri hlutinn til að netöryggissveit sé heimilt að óska eftir nafnlausum rauntímagögnum frá fjarskiptafyrirtækjum. Þykir meiri hlutanum rétt að skilgreina hugtakið nánar. Með nafnlausum rauntímagögnum er átt við tölulegar upplýsingar og kóða sem bjóða upp á rekjanleika fjarskiptaumferðar í IP-fjarskiptanetum, til dæmis þegar um ræðir skyndilega aukningu umferðar …“

Áfram segir:

„Um er að ræða gögn sem byggjast á upplýsingum sem fram koma í utanáskrift á haus IP-fjarskiptapakka, en hvergi koma fram upplýsingar um nafn sendanda eða móttakanda. Upplýsingarnar segja til um IP-vistföng, hvers eðlis pakkasendingin er með tilliti til tæknilegra eiginleika, svo sem magns og fjölda gagnapakka, tegund þeirra, þá flutningsaðferð sem notuð er, um hvaða tengihlið umferðin fer o.s.frv.“

Ég held að það sé álitamál skulum við segja í þessu sambandi hvort um er að ræða persónugreinanleg gögn eða ekki. Það má halda því fram að þær IP-tölur sem þarna er vísað til geti verið sambærilegar símanúmerum og í ýmsum lögum er fjallað um símanúmer sem persónugreinanlegar upplýsingar jafnvel þó að fletta þurfi upp í símaskrá eða eitthvað til að afkóða þær. Mér finnst rétt að halda því til haga, vegna þess að persónuverndarsjónarmið koma töluvert við sögu í frumvarpinu, að verði ákvæðið samþykkt eins og það liggur fyrir þá þarf alla vega að fara mjög gætilega í túlkun í þessu sambandi. Auðvitað kann að vera um það að ræða að IP-tölur sé hægt að nýta með sama hætti og persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. í mörgum tilvikum er hægt að rekja hvaðan gögn koma ef IP-tölurnar eru aðgengilegar. Þarna er að mínu mati um að ræða atriði sem getur verið viðkvæmt.

Allir eru sammála um að mikilvægt sé að til séu aðgerðir eða viðbragðsáætlanir og möguleikar að bregðast við netárásum, sérstaklega þegar um er að ræða mikilvæg kerfi hvort sem er hjá fjarskiptafyrirtækjunum sjálfum eða öðrum hópum fyrirtækja sem þurfa að vernda upplýsingar o.s.frv. Netárásir eru vaxandi vandamál og raunhæft vandamál og frumvarpið er í heild viðleitni til að bregðast við því og það er jákvætt. En að mínu mati er full ástæða til að stíga varlega til jarðar þegar kemur að þeim þáttum sem telja má að geti varðað við persónuupplýsingar. Það er að mínu mati enn álitamál hvort nægilega er komið til móts við þau sjónarmið í viðkomandi ákvæðum frumvarpsins.

Það eru kannski ekki fleiri þættir sem ég vildi staldra við að svo stöddu. Vakin hefur verið athygli á því af hálfu fjarskiptafyrirtækja og fleiri aðila að með 1. gr. frumvarpsins sé gert ráð fyrir að heimilt sé að stofna fagráð, þ.e. ráðherra er heimilt að setja á stofn fagráð með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar, hagsmunaaðila og annarra í þeim tilgangi að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskyldu á sviði fjarskipta. Allt er það gott og blessað. En í þessu felst jafnframt að verið er að leggja niður fjarskiptaráð sem á að vera samráðsvettvangur í dag milli þessara aðila. Það má segja að hagsmunaaðilar hafi gert athugasemdir við það að í staðinn fyrir að gert sé ráð fyrir því að skylt sé að hafa samráð á slíkum vettvangi þá er það ekki fært í heimildarákvæði til ráðherra. Það má því segja að það verði þá undir ákvörðunum ráðherra komið hvort og þá hvernig slíkum samráðsvettvangi er komið á fót í stað þess að það sé skylt samkvæmt lögum.

Það kann að vera að þetta breyti ekki miklu í raun og fram kom í starfi nefndarinnar að af ýmsum ástæðum hefur ekki verið um að ræða mikið starf á þessum samráðsvettvangi síðustu missirin. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið nær lagi að endurvekja fjarskiptaráðið með þeim hætti sem núgildandi lög gera ráð fyrir frekar en að veikja þetta ákvæði eins og þarna kemur fram. En ég vona að þetta muni kannski ekki verða til mikils skaða í praxís, að í framkvæmd muni ráðherra gæta þess að hafa samráð við þá aðila sem starfa á sviði fjarskipta og hafa mikla hagsmuni af því en um leið mikla þekkingu á því sviði sem um er að ræða, það skiptir auðvitað líka máli.

Það er rétt að fram komi að hagsmunaaðilar, fyrirtækin á þessu sviði, gera athugasemdir við að hafa ekki verið hafðir með í ráðum eða að ekki hafi verið leitað nægilega til þeirra í sambandi við gerð þessa frumvarps. Þeir vísuðu til þess í umsögnum sínum að hvorki þeir né fjarskiptaráð hafi komið að undirbúningi þessa frumvarps sem annars vegar virðist eiga uppruna sinn í Póst- og fjarskiptastofnun og hins vegar í ráðuneytinu sjálfu. En það er önnur saga.

Við vonum nú að verði frumvarpið að lögum í því formi sem það er nú verði engu að síður um það að ræða að stofnuð verði fagráð, eitt eða fleiri, og ráðherra tryggi þar með samráð við hagsmunaaðila og það verði betra en verið hefur á undanförnum missirum. En ég ítreka að það er að mínu mati alger óþarfi að veikja ákvæðið með þeim hætti að breyta því úr skyldu í heimild og ég játa að mér hefur ekki þótt koma fram fullnægjandi rökstuðningur fyrir þeirri breytingu.

Varðandi frumvarpið í heild eða kannski þann þátt sem snýr að svokölluðum CERT-hópi, sem kallaður er netöryggissveit í breytingartillögum meiri hlutans. Það er vissulega íslenskun orðsins en velta má því fyrir sér hvort það hefur kannski annan blæ en efni standa til, netöryggissveit hljómar svolítið eins og um sé að ræða einhvers konar viðbragðssveit, svona eins og sérsveit lögreglu eða eitthvað þess háttar. Þetta er ekki alveg þannig. En ég velti því fyrir mér almennt talað hvort hugsanlega sé verið að fara aðra leið en gert er víða annars staðar. Þar eru hinir svokölluðu CERT-hópar einmitt frekar samráðshópar þeirra sem starfa á viðkomandi sviði en síðan eru þá önnur yfirvöld, jafnvel í einstökum tilvikum leyniþjónustur eða einhverjir slíkir aðilar, sem hafa hinar formlegu valdheimildir. Hérna er þessu svolítið blandað saman þannig að þetta verður hópur innan Póst- og fjarskiptastofnunar sem hefur heimildir en starfar hins vegar undir sama heiti og miklu óformlegri hópar víða annars staðar þannig að þetta kann að vera villandi.

Nú er ég ekki að leggja til í dag að við breytum þessu með því að setja á fót einhvers konar öryggislögreglu eða leyniþjónustu til að taka að sér hina mikilvægustu öryggisþætti þessarar starfsemi. Það er stærri umræða en svo að við förum út í það en þetta gerir það að verkum að þetta verður með svolítið öðrum hætti en við sjáum í löndunum í kringum okkur.

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi, ég held að meiri hlutinn hafi í flestum efnum lagt til jákvæðar breytingar og komið til móts við margar af þeim athugasemdum sem hafa komið fram. Þar munar mestu um það að viðurlagaköflunum sem voru mjög umdeildir er frestað. Gjaldtökukaflinn sem líka var umdeildur var afgreiddur fyrir jól þannig að hann er ekki til umfjöllunar núna. En af þeim ástæðum sem ég nefndi í máli mínu vildi ég ekki vera á nefndaráliti meiri hlutans og mun ekki greiða atkvæði með frumvarpinu þegar það kemur til atkvæðagreiðslu.