140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um umhverfisábyrgð. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið fjölmarga aðila til fundar við sig til umsagna og ráðgjafar.

Þetta frumvarp var fyrst lagt fyrir á 139. löggjafarþingi og þá komu fram athugasemdir fyrir þáverandi umhverfisnefnd frá hagsmunaaðilum. Vegna þeirra athugasemda hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu og því er það nú lagt fram að nýju. Þáverandi meiri hluti umhverfisnefndar skilaði einnig nefndaráliti sem fylgir þessu áliti í fylgiskjali.

Í umfjöllun sinni um málið fjallaði umhverfisnefnd um markmið og gildissvið laganna, um undantekningar frá gildissviði, um lagaskil, skilgreiningar, athafnaskyldu og tilkynningarskyldu, málskot og viðurlög meðal annars. Varðandi markmið og gildissvið laganna er með frumvarpinu lögð til heildstæð löggjöf um umhverfisábyrgð sem byggist á meginreglu umhverfisréttar um að mengunarvaldur skuli að jafnaði bera þann kostnað sem hlýst af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum mengunar.

Með samþykkt frumvarpsins yrði innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB, um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess. Tilskipunin byggist á einni af meginreglum umhverfisréttarins, þ.e. greiðslureglunni sem iðulega er nefnd mengunarbótareglan og felur í sér að mengunarvaldur bæti það tjón sem hann veldur í umhverfinu og beri kostnað af því.

Nefndin ræddi nokkuð um gildissvið frumvarpsins því hér á landi hafa ekki verið sett almenn lög um skaðabótaábyrgð vegna umhverfistjóns. Þar af leiðandi gilda almennar reglur um ábyrgð á grundvelli sakar þar sem sérákvæðum um hlutlæga ábyrgð sleppir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins ber mengandi atvinnustarfsemi og önnur sambærileg starfsemi sem fellur undir II. viðauka frumvarpsins hlutlæga ábyrgð á umhverfistjóni, þ.e. hvort sem um saknæma háttsemi er um að ræða eða ekki. Á hinn bóginn þegar um er að ræða umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum og yfirvofandi hættu á slíku tjóni á hin almenna sakarregla við. Meiri hlutinn áréttar í þessu sambandi að gildissvið frumvarpsins afmarkast af því hvað telst umhverfistjón, hvernig atvinnustarfsemi er skilgreind og hvaða svæði teljast til verndaðra tegunda og náttúruverndarsvæða.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í það nefndarálit sem hér liggur fyrir vegna þess að það er öllum þingmönnum ljóst og opinbert á þskj. 1379. Eins og ég sagði var rætt um allmörg atriði í þessari umfjöllun. Ég vil þó aðeins nefna tvö atriði sem ég ætla að staldra við. Það var annars vegar varðandi lagaskil. Meiri hlutinn telur einsýnt að ákvæði í 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins tryggi að ekki myndist óvissa um lagaskil, valdheimildir og ráðstafanir stjórnvalda. Síðan er rétt að geta þess að veigamestu breytingarnar sem voru gerðar á frumvarpinu þegar það var lagt fram að nýju eru tvær viðbætur við hugtakið „Verndaðar tegundir og náttúruverndarsvæði“ eins og sjá má í 6. gr. Annars vegar hefur verið bætt við náttúruminjum á náttúruverndaráætlun og hins vegar svæðum í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum frá 2011.

Meiri hluti nefndarinnar metur það svo að áætlanir um náttúruvernd og orkunýtingu hafi að geyma ítarlegt og faglegt mat á náttúruminjum og landsvæðum og séu til vitnis um vilja löggjafarvaldsins til friðlýsingar. Meiri hluti nefndarinnar telur að að undangengnu þessu mati sé ekki svigrúm fyrir mismunun og því fagnar meiri hlutinn þessum breytingum.

Líka er fjallað um góða verndarstöðu verndaðra tegunda í 3. gr. frumvarpsins. Hugtakið „góð verndarstaða“ er ekki skilgreint í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999. Meiri hlutinn tekur undir athugasemdir sem bárust frá Umhverfisstofnun hvað þetta varðar og leggur til skilgreiningu á hugtökunum „verndarstaða vistgerðar“ og „verndarstaða tegundar“. Enn fremur telur meiri hlutinn rétt að bæta við skilgreiningu á hugtakinu „búsvæði“ og leggur einnig til orðalagsbreytingu á hugtakinu „endurheimt“ í 6. gr. frumvarpsins en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða.

Þá leggur meiri hlutinn einnig til vegna skilgreiningar á hugtakinu „náttúruauðlind“ í 8. tölulið að við þá skilgreiningu bætist „umhverfi ríkt að náttúrugæðum“.

Enn fremur leggur meiri hlutinn til skilgreiningu á hugtakinu „sjálfbær umsvif“ í breytingartillögu við frumvarpið en áréttar að þau ákvæði sem varða tjón á vatni þarf að túlka með hliðsjón um stjórn vatnamála.

Nefndin ræddi líka nokkuð um hugtakið „þjónusta náttúruauðlinda“. Mönnum hugnaðist ekki að náttúruauðlindir gætu veitt þjónustu og komust að þeirri niðurstöðu eftir nokkrar umræður, að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands, að betur færi á því að kveða á um virkni og eiginleika náttúruauðlinda en þjónustu og lögðu til breytingu þar að lútandi.

Ég ætla líka aðeins að segja frá umræðum sem urðu um undantekningar frá gildissviði. Nefndin ræddi nefnilega um ábyrgð hernaðaraðila á viðskilnaði þegar hernaðarumsvifum eða starfrækslu herstöðva er lokið á landsvæðum. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir það sjónarmið að margs konar mengun geti fylgt hernaði og landvörnum sem örðugt kann að vera að bæta til fulls en engu að síður telur meiri hlutinn fulla ástæðu til þess að þeir sem bera ábyrgð á hernaðarumsvifum, t.d. starfrækslu herstöðva, bæti eftir því sem unnt er umhverfistjón sem hlotist hefur af slíkri starfrækslu eða umsvifum á einstökum svæðum, t.d. á friðartímum. Meiri hlutinn leggur því til að felldur verði brott fyrri hluti ákvæðisins um undanþágu ábyrgðar á tjóni eða hættu á því sem rekja megi til landvarna eða alþjóðaöryggis.

Síðan var fjallað um athafnaskyldu og tilkynningarskyldu, um málskot og viðurlög sem ég ætla ekki að rekja nánar hér en vísa til nefndarálitsins.

Meiri hluti nefndarinnar sem stendur að þessu nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem því fylgja eru hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, framsögumaður sem hér stendur, Þuríður Backman, Róbert Marshall og Mörður Árnason.