140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vegna athugasemdar hv. þm. Birgis Ármannssonar um undantekningar frá gildissviði sem lúta að hernaði og landvörnum ætla ég að árétta að samkvæmt b-lið 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að lögin gildi ekki um umhverfistjón eða hættu á umhverfistjóni vegna vopnaðra átaka, hernaðarátaka, borgarastyrjaldar eða uppreisnar. Við leggjum ekki til neina breytingu á þessu þar sem um er að ræða raunveruleg hernaðarátök.

Hins vegar finnst okkur rétt að leggja skyldu á þá sem hafa hernaðarumsvif, eins og starfrækslu herstöðva á friðartímum og hernaðarlegar tilraunir, að skilja vel við land. Þess vegna finnst okkur ekki ástæða til að undanþiggja slíka starfsemi bótum þegar um það er að ræða. Þetta vildi ég árétta umræðunnar vegna.