140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, ég tók kannski ekki nægilega skýrt til orða hvað þetta varðar í ræðu minni hér áðan. Það er alveg rétt að áfram er gert ráð fyrir því að undantekning um mengunarbótaregluna gildi þegar um er að ræða vopnuð átök, hernaðarátök, borgarastyrjöld eða uppreisn. Eigum við ekki að segja að við slíkar aðstæður sé þetta afleiðing þar sem menn hafa kannski stærri vandamál við að glíma í þessu sambandi en að finna út hver á að borga tjónið af einhverjum umhverfisspjöllum sem verða við þessar aðstæður?

Varðandi b-liðinn er orðalagið eins og það er í frumvarpinu sjálfu býsna opið og víðtækt. Þar er talað um að undanþegin sé bótareglunni starfsemi þar sem megintilgangurinn er að þjóna landvörnum eða alþjóðaöryggi. Ég skil mjög vel að meiri hlutinn skuli hafa talið ástæðu til að gera breytingu á þessu vegna þess að það er auðvitað mjög opið hvað þjónar landvörnum eða alþjóðaöryggi. Það er gríðarlega loðið og teygjanlegt ef svo má segja.

Þó að ég sé sammála meiri hlutanum um að það hefði mátt endurskoða orðalag þarna er ég ekki endilega sammála meiri hlutanum um að þetta eigi allt að falla brott. Ég játa hins vegar að þetta er ekki stærsta vandamálið í mínum huga enda má segja að b-liðurinn þar sem vísað er til vopnaðra átaka, hernaðarátaka, borgarastyrjaldar eða uppreisnar nái vissulega, eins og meiri hlutinn segir, til óviðráðanlegra atvika fyrir þau stjórnvöld sem fást við málin eða þá aðila sem bera ábyrgð á tjóninu. Þegar um er að ræða hins vegar viðvarandi starfsemi, (Forseti hringir.) ég tala nú ekki á friðartímum, gegnir auðvitað öðru máli. Ég viðurkenni það.