140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir það að rétt er að horfa til þess að Íbúðalánasjóður hafi ekki verri stöðu en þeir sem eru í samkeppni við sjóðinn. Við fengum hins vegar mjög skýr skilaboð frá Samtökum fjármálafyrirtækja inn í okkar umræðu og vinnu í velferðarnefnd. Að þeirra mati var allt of skammt gengið með þessum breytingum og engan veginn verið að mæta þeim kröfum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefði sett fram. Það er alveg ljóst að í sumum tilfellum er verið að stíga ákveðin skref í átt að þeim kröfum. Menn hafa fengið ákveðinn aðlögunartíma.

Það er ljóst að þörf er frekari viðbragða og endurbóta í þessum málum þegar frá líður. Menn meta það þannig að enn sé verið að reisa fjármálamarkaðurinn við eftir hrun og hann sé ekki kominn í það jafnvægi og þá stöðu að hann geti boðið upp á þá samkeppni og þá valkosti í íbúðalánum sem annars væri hægt við eðlilegt ástand. Þetta eru auðvitað allt matsatriði en það er ljóst að innan þriggja, fjögurra ára munu þessi mál koma til frekari yfirferðar. Ég tel rétt að þau atriði sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hér verði tekin sérstaklega inn í þá umræðu og menn fari yfir þessi mál á breiðari og ítarlegri grunni en gert er nú í þessari atrennu.