140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú gerist það ekki þannig að svona sjóðir spretti bara upp allt í einu, án þess að menn átti sig á því. Ég var að spyrja framsögumann málsins hvort nefndinni hafi borist til eyrna að þeir yrðu fleiri en tveir. Verður einn opinber sjóður og annar ekki opinber o.s.frv.? Ég geri ekki ráð fyrir að svona sjóðir myndist bara allt í einu.

Ég vil spyrja um þá sem ekki treysta sér til að vera á vinnumarkaði. Nú er mjög mikill eða nokkuð stór hluti ungs fólks öryrkjar, miklu meira en gengur og gerist annars staðar. Ég hef það stundum á tilfinningunni að það sé allt að því lífsstíll og spurningin er því sú: Á fólk að geta valið það, ungur maður nítján ára eða tvítugur, að vera öryrki? Hann væri með ákveðin einkenni þess og fengi örorkumat, en ætti hann svo bara að geta valið það að hann stefni ekki á endurkomu á vinnumarkað, af því að það er bara ágætislífsstíll að vera í þeirri stöðu?

Þetta er hlutur sem menn þekkja mjög vel erlendis þar sem talað er um öryrkja í þriðju og jafnvel fjórðu kynslóð.

Ég vil því spyrja hvort menn eigi ekki að skoða það frekar að setja inn í lögin að þeir sem geti skuli stefna á að fara á vinnumarkað.