140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að væntanlega spretta þessir sjóðir ekki upp og nei, það var ekki um það fjallað fyrir nefndinni hvernig sjóðir mundu myndast eða spretta upp. Og það kom ekkert það fram fyrir nefndinni sem benti til þess að sérstakur sjóður mundi verða fyrir opinbera starfsmenn og annar fyrir menn á almennum vinnumarkaði. Ég get ekki svarað því öðruvísi.

Ljóst er að allt frá árinu 2008 hafa hugmyndir um það kerfi sem við erum hér að lögfesta og starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs haft veruleg áhrif, því að eins og ég nefndi áðan og kom fram fyrir nefndinni hafa sprottið upp margar missterkar starfsendurhæfingarstöðvar úti um land og það er áreiðanlegt að það er á grunni þeirra væntinga og í þeim sama tilgangi sem þessar áætlanir nú byggjast á.

Það er einn stór og öflugur sjóður, VIRK Starfsendurhæfingarsjóður, sem veltir milli 700 og 800 milljónum á þessu ári og velti milli 400 og 500 milljónum á síðasta ári. Ég vænti þess að hann muni eflast og aðrir sjóðir jafnsterkir geti sprottið upp við hlið hans því að þegar kerfið er fullfjármagnað mun það verða með 3,5 milljarða kr. í tekjur á ársgrundvelli miðað við fjárlög ársins 2012.

Hvað varðar ungt fólk sem er öryrkjar og ekki er á vinnumarkaði er auðvitað bara tvennt til í því. Það er annars vegar að hjálpa því fólki í nám og inn í skólana og unnið hefur verið sleitulaust að því, vil ég segja, frá hruni að virkja þann hóp. En einnig er í 9. gr. ákvæði um að það skuli samið við ráðherra eða ráðuneytið um þjónustu (Forseti hringir.) við þá sem eru utan vinnumarkaðar til þess að koma þeim á vinnumarkað ef þeir vilja og það tel ég að (Forseti hringir.) taki til þessa hóps líka.