140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en mig langar að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir umfjöllun hennar. Ég get tekið undir varnaðarorð hennar um það kerfi sem við erum hér að koma á.

Vinna nefndarinnar snerist í raun mikið um viðbrögð við þeim áhyggjum sem menn höfðu, ekki endilega vegna kerfisins sem slíks heldur vegna þess hversu stórt það stefnir í að verða og hversu hratt það átti að gerast. Breytingartillögurnar sem við leggjum hér fram miða að því að draga úr þeim stökkum sem ella hefðu orðið í stærð kerfisins og tryggja að það vaxi hægar og í ákveðnum þrepum þannig að unnt verði að gera áætlanir um þjónustu þess og það hvernig nýir aðilar koma inn í það. Þannig mun framlag ríkisins á næsta ári verða 300 millj. kr. í stað 600, og alltaf er ég að tala um verðlag ársins 2012 í fjárlögum, á árinu 2013 verður það 900 milljónir og á árinu 2014 1.200 milljónir. Þá er það fullfjármagnað af hálfu ríkisins.

Þetta eru gríðarlega miklir fjármunir, ég get tekið undir það með hv. þingmönnum. Það er okkar hér í þessum sal, fjárveitingavaldsins, að tryggja að þessi útgjöld ríkisins komi ekki niður á þeim stofnunum sem hv. þingmaður nefndi, Reykjalundi og Grensás — ég get nefnt fleiri staði, ég get nefnt Kristnes — þannig að tryggt verði að ekki verði dregið úr þjónustu við þá sem þurfa á læknisfræðilegri endurhæfingu vegna örorku að halda.

Eftir að hafa farið allvel yfir þetta mál með nefndinni og þeim sem þar komu að verð ég að segja að við getum lítið gert annað en að treysta á samhæfingu og samvinnu milli þessara tveggja kerfa. Það er auðvitað ráðuneytisins að tryggja það, þar er bæði sambandið við vinnumarkaðinn, við starfsendurhæfinguna og við heilbrigðisþjónustuna og síðan er fjárveitingavaldið alltaf hér hjá Alþingi.

Ég get líka tekið undir það sem hv. þingmaður sagði að það er stundum önugt fyrir fjárveitingavaldið og fyrir þingmenn þegar samið er um útgjöld úti í bæ. En þannig er þetta nú einu sinni að til þess að ná árangri á tilteknum sviðum, til að mynda að halda hér uppi atvinnu, leggur það á ríkið að leggja sitthvað af mörkum og ná samkomulagi. Þannig er það líka í þessum sal að ef menn greinir á um eitthvað þá endar á því að menn verða að setjast niður og ná samkomulagi hvað sem tautar og raular. En ég þakka ekki aðeins hv. þingmanni heldur einnig öðrum nefndarmönnum, sem voru drjúgir við setu hér í þingsal yfir þessu, kærlega fyrir þá vinnu sem allir hafa lagt til þessa máls.