140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

717. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem nefndin öll sameinaðist um að flytja fyrir nokkrum mánuðum. Hún hlaut góðan hljómgrunn hér í þinginu þegar ég mælti fyrir henni við fyrri umræðu tillögunnar.

Nefndin fjallaði um hana á milli umræðna þó að hún hafi komið til með þeim sérstaka hætti að það var að frumkvæði nefndarinnar sjálfrar og flutt af nefndinni sjálfri, auðvitað í góðu samstarfi við innanríkisráðuneytið í þessu máli eins og mörgum öðrum. Við leituðum umsagna hjá Fangelsismálastofnun ríkisins, Félagi yfirlögregluþjóna, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Í tillögunni leggjum við til að innanríkisráðherra verði falið að undirbúa aðgerðaráætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi sem liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2012. Til að tíminn sé aðeins rýmri og raunhæfari leggjum við til eftirfarandi breytingu, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „1. október 2012“ í 1. mgr. komi: 1. desember 2012.“

Þá er hæstv. fjármálaráðherra falið að tryggja 50 millj. kr. fjárveitingu til lögreglunnar í fjáraukalögum þessa árs til að lögreglan geti starfrækt rannsóknar- og aðgerðarteymi gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við teljum brýna þörf á sérstökum aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem og að stemma stigu við vændi og mansali. Við teljum að á því ári sem liðið er frá því að sett var á fót sérstakt teymi innan lögreglunnar til að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi hafi það svo sannarlega sannað gildi sitt og náð eftirtektarverðum og góðum árangri.

Við leggjum því til að fjármálaráðherra tryggi fjárveitingu til að halda þessu sérstaka teymi sem einbeitir sér að skipulagðri glæpastarfsemi og engu öðru þannig að lögreglan geti áfram unnið það mjög góða starf sem hún hefur verið að vinna með innanríkisráðuneytinu í alls konar aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. innanríkisráðherra og starfsmönnum hans fyrir einkar gott samstarf við allsherjar- og menntamálanefnd í þessum málum. Við funduðum nokkrum sinnum sérstaklega um þessi mál á fundum með ráðuneytinu og aðilum frá EUROPOL o.fl. um kortlagningu þessara mála og mögulegar aðgerðir til varnar. Skapaðist einbeittur vilji í nefndinni að vinna með ráðuneytinu og lögreglunni að öllum tiltækum ráðum, bæði til að afla fjármuna og annarra tóla og tækja til að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Við leggjum til þessa einu breytingu frá fyrri umræðu sem ég nefndi áðan og þann 24. maí, þegar þetta mál var tekið út, rituðu undir álitið auk mín hv. þingmenn Þráinn Bertelsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Birgitta Jónsdóttir. Þakka ég þeim öllum fyrir einkar gott samstarf í nefndinni um þessi mál sem og mörg önnur. Við höfum afgreitt mörg mál út, þingmannamál og önnur, sem koma frá þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu. Þetta spratt upp í nefndinni sjálfri, það var hún sem flutti þetta. Nú er þetta síðari umræða þannig að verði þetta samþykkt hér á eftir er þessi tillaga orðin að veruleika þessu starfi mjög til hagsbóta og góðs.