140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er um að ræða annað mál sem er sprottið upp úr starfi nefndarinnar en tilurð þess er ekki frá einstökum þingmönnum eða tilteknu ráðuneyti.

Um árabil hefur verið rætt um að setja sérstakan ramma utan um heiðurslaun listamanna og við settum niður starfshóp í nefndinni snemma í vetur sem í sátu ég, hv. þingmenn Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Þuríður Backman, og fórum við töluvert yfir málið. Fyrir það fyrsta hvort við almennt teldum að halda ætti úti heiðurslaunum listamanna og niðurstaða okkar varð sú að það væri jákvætt og væri ágætur farvegur til að auka við fjárfestingar og framlög til listgreina. Þetta tæki ekki frá neinu öðru heldur væri hrein viðbót við opinber framlög til lista og menningar sem er fjarri því að vera ofaukið. En við töldum að það þyrfti ramma utan um þetta til að skilgreina það upp á nýtt, auka faglegt mat við val á listamönnum af því að auðvitað koma margir listamenn til álita hverju sinni úr ýmsum listgreinum.

Við fengum umsagnir frá Bandalagi íslenskra listamanna, Myndstefi og Rithöfundasambandinu, eftir að hafa tekið ákvörðun um að flytja málið, töluðum okkur niður á niðurstöðu um það hvernig efni máls skyldu vera því að auðvitað sýndist sitt hverjum um það. En ég held að niðurstaðan hafi verið ágæt. Við leggjum til að með frumvarpinu verði sett sérlög um heiðurslaun listamanna sem ákveðin eru í fjárlögum ár hvert og leggjum til að mælt verði fyrir um að þeir einir geti notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni að verulegum hluta hennar til listar og skara fram úr við listsköpun innan lands eða á alþjóðavettvangi.

Við gerum ráð fyrir að allsherjar- og menntamálanefnd flytji breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga þar sem nöfn þeirra sem njóta heiðurslauna komi fram og skal nefndin leita umsagnar — og það er nýmæli — sérstakrar nefndar sem forseti Alþingis skipi um þá listamenn sem til greina komi að njóti heiðurslauna Alþingis. Lögð er til sú breyting frá því sem nú er að heiðurslaun séu þau sömu og starfslaun listamanna á hverjum tíma en að þau verði 80% af starfslaunum eftir að viðkomandi nær sjötíu ára aldri. Við leggjum til að sú nefnd fari í gegnum það hverjir koma til greina en það er áfram allsherjar- og menntamálanefndar að tilnefna listamanninn. Það er Alþingi sem ákveður þetta, þetta eru heiðurslaun Alþingis en ekki heiðurslaun Bandalags íslenskra listamanna eða eitthvað svoleiðis. Við vorum líka mjög ásátt um að halda þessu inni en auka bakgrunn valsins með þessum hætti

Þá er það nýmæli lagt hér til að sá sem nýtur heiðurslauna geti óskað eftir því að afsala sér heiðurslaunum tímabundið sinni hann til að mynda öðru starfi og telji hann sjálfur eðlilegt að afsala sér heiðurslaunum á meðan hann gegnir því, þannig að hann afsalar sér laununum en heldur eftir heiðrinum og sæti á listanum.

Meiri hlutinn leggur til tvenns konar breytingar á frumvarpinu, annars vegar á 3. og 4. gr. til að lagfæra orðalag og hins vegar til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að þeir sem njóta heiðurslauna nú njóti þeirra áfram þrátt fyrir að í 1. gr. frumvarpsins sé kveðið á um að Alþingi veiti allt að 25 listamönnum heiðurslaun. Við höfðum ólíkar skoðanir á því. Mitt viðhorf í upphafi var að listinn ætti að telja fleiri listamenn, jafnvel 30 eða 35, en margir aðrir vildu að þeir væru færri og þetta var niðurstaða, málamiðlun, sem sett var fram til að ná samstöðu um málið af því að forsendurnar fyrir því að nefndin flytti þetta mál væri þverpólitísk samstaða væri því um flutning málsins.

Þær breytingar eru lagðar til að þeir einir geti notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr á öðrum vettvangi o.s.frv. Taka skal tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kyni.

Forseti Alþingis skal skipa nefnd þriggja manna sem allsherjar- og menntamálanefnd leitar umsagnar hjá um þá listamenn sem til greina komi að njóti heiðurslauna, eins og áður er sagt.

Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, eins og áður sagði. Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. um að allt að 25 listamenn njóti heiðurslauna skulu þeir sem njóta heiðurslauna samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 áfram njóta þeirra.

Skúli Helgason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rituðu auk mín hv. þingmenn Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgitta Jónsdóttir.

Ég er mjög ánægður með það að við náðum góðri samstöðu um málið og vona ég að það gangi eftir og verði ágætur rammi utan um þetta fyrirkomulag, sem auðvitað sýnist sitt hverjum um en ég held að eigi fullan rétt á sér áfram.