140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[19:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til þess að taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem hún flutti hér fyrir stuttu um að þetta mál sé ekki hægt að samþykkja. Ég held að ekki sé rétt að festa það í lög með þeim hætti sem hér er verið að gera. Auk þess höfum við þá skoðun að rétt sé að horfa til þess að styrkja unga listamenn enn frekar en er í dag. Þar af leiðandi greiði ég atkvæði á móti frumvarpinu.

Ég held að full þörf sé á því áður en svona langt er gengið að í þinginu fari fram enn meiri umræða en verið hefur um listamannalaun og ýmsa aðra styrki, laun eða hvað við köllum það, sem Alþingi er að veita á hverjum tíma. Þar af leiðandi held ég að það sé tímaskekkja að koma fram með frumvarpið á þessum tíma.