140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur varðandi rétt barna í Sýrlandi. Við hv. þingmenn erum stundum ósammála en þegar kemur að rétti barna verðum við að standa saman. Okkur ber að standa saman í þeim efnum.

En varðandi réttindi annarra vil ég líka taka undir orð hv. 1. þm. Suðurk., Björgvins G. Sigurðssonar, vegna þess að rétt eins og hann rak mig í rogastans þegar ég las yfirlýsingu og ályktun Dýralæknafélags Íslands varðandi tillögur eða hugmyndir ráðuneytismanna um að minnka réttindi dýra hér við land, sem er með hreinum ólíkindum. Verið er að tala um að leyfa eigi geldingar á grísum án deyfingar, verið er að tala um að deyða dýr með því að drekkja þeim, verið er að tala um að deyða dýr með því að kæfa þau. Því hljótum við þingmenn á hinu háa Alþingi að hrinda, það getur engan veginn farið í gegnum löggjafarsamkomu Íslendinga og hvað þá að taka burtu þau ákvæði sem koma í veg fyrir refsingar af þessu tagi, minnka kröfur til þeirra sem halda dýr hvað þetta varðar.

Slíkar hugmyndir sem birst hafa í frumvarpsformi úr ráðuneytinu eru aðför að dýrum að mati þess sem hér stendur og vonandi fleiri þingmanna og okkur ber að hrinda þessum áformum og standa vörð um dýrin í landinu vegna þess að þau hafa mikinn rétt til að lifa án ótta.