140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að nota tækifærið undir liðnum störf þingsins til að hvetja hv. þingmenn til að beita sér í málefnum Íslenskrar ættleiðingar. Samningar hafa verið lausir og frá 2009 hafa fulltrúar félagsins verið í viðræðum við innanríkisráðuneytið um að semja. Fyrir liggja drög að þjónustusamningi en ekki hefur tekist að fjármagna þann samning. Þeim sem óskað hafa eftir því að ættleiða erlent barn er skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem hefur löggildingu ráðherra. Íslensk ættleiðing er eina löggilta ættleiðingarfélagið á Íslandi og þess vegna er það mjög dapurlegt að ekki sé búið að ganga frá umhverfi þessa félags þannig að hægt sé að halda vel utan um þessi mál.

Ljóst er að ekki er of mikið til af fjármagni hjá ríkissjóði en engu að síður hljótum við að ætla okkur að halda úti þjónustu sem þessari og gefa fólki tækifæri á því að ættleiða erlend börn. Ég tel að það sé skylda okkar allra að beita okkur í þessu máli, reyna að hafa áhrif á að þessi samningur verði að veruleika þannig að aðstæður ættleiðingarfélagsins sem hefur þessar skyldur verði þannig að það geti sinnt verkefnum sínum. Félagið gengur nú á þann litla varasjóð sem til er og það gengur ekki, við þurfum öll að beita okkur fyrir því að þessi samningur komist á.