140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með félaga mínum í Íslandsdeild NATO, hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur, varðandi það sem hún sagði um Sýrland. Það blasir við að þar mun þessi hamslausa villimennska og hrikalega ofbeldi halda áfram þar til alþjóðasamfélagið fer þangað inn í einhverri mynd og skakkar leikinn. Það gefur augaleið að mínu mati að alþjóðasamfélagið getur ekki horft upp á þetta lengur agndofa og úrræðalaust. Við sáum hvernig ástandið þróaðist í Líbíu þar til alþjóðasamfélagið greip inn í atburðarásina.

Á vorþingi NATO fyrir nokkru síðan, sem ég sótti sem formaður Íslandsdeildar NATO, spurði ég sérstaklega forustu NATO á fyrirspurnatíma í þinginu, á lokadegi þess, út í það hvort fyrirætlanir væru uppi um einhvers konar afskipti af ástandinu og þróuninni í Sýrlandi sem þá hafði nýverið náð hámarki eftir fjöldamorðin hörmulegu í Hula, en þar var fátt um svör önnur en þau að að svo komnu máli hygðist NATO ekki hlutast til um þá skelfilegu atburði sem ættu sér stað í landinu. Var heldur lítil umræða um málið og þótti mér þetta þó vera eitt áleitnasta viðfangsefnið sem upp á sambandið horfði á þeim tíma og eins núna. Þess vegna er spurning hvernig við Íslendingar snúum okkur í því að beita áhrifum okkar innan NATO og annarra alþjóðastofnana í því að þrýsta á um að tekin verði ákvörðun um einhvers konar íhlutun og aðgerðir til að skakka leikinn í Sýrlandi þar sem við horfum upp á að tugþúsundum saklausra borgara er slátrað þar dag eftir dag. Ekkert virðist ætla að koma í veg fyrir að þetta ástand vari áfram og versni nema alþjóðasamfélagið taki ákvörðun um að stíga þarna inn og skakka leikinn.