140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mér á óvart hve neikvæður hv. þingmaður var í garð þessa verkefnis og hvernig hann stillti upp ræðu sinni. Að mínu mati er hér um að ræða afskaplega jákvæða framkvæmd sem vonandi fer af stað þegar þetta mál verður afgreitt úr þinginu. Ég trúi ekki öðru en að fyrir því sé góður meiri hluti á Alþingi þvert á alla flokka eins og mér hefur heyrst af umræðunni þó að einhverjir hafi efasemdir.

Ég undrast það helst í málflutningi hv. þingmanns þegar hann fer yfir verkefnið eins og það lítur út gagnvart honum þegar hann segir að um sé að ræða verulega áhættu fyrir ríkið. Um er að ræða verkefni sem er fjármagnað eins og lýst var áðan en veggjöld munu standa undir öllum afborgunum af framkvæmdinni. Ef umferð er minni en spár ganga út frá er einfaldlega hægt að lengja í tímanum o.s.frv.

Við fórum vel yfir þetta í fjárlaganefnd á dögunum og mitt mat var að allar spár um umferð og umferðaraukningu væru afskaplega varfærnar. Ekki er verið að spenna upp óraunhæfar spár heldur taka mið af þeirri þróun sem hefur orðið í einu framkvæmdinni sem er raunverulega hægt að hafa til samanburðar, framkvæmdinni við Hvalfjarðargöng, en samt er dregið verulega úr og ekki eru tekin inn í myndina af fullu afli þau stakkaskipti sem verða á mannlífi og umsvifum þar þegar framkvæmdir fara á fullt á Þeistareykjasvæðinu með virkjunum og orkufrekum iðnaði.

Ég hef verið mjög eindreginn stuðningsmaður Vaðlaheiðarverkefnisins eins og því er stillt upp þó að ég geri ekki lítið úr þeim sem hvetja til varfærni í þessu öllu saman. Ég tel að við höfum farið mjög varlega og að allar spár og öll viðmið séu mjög varfærnisleg. Ég undrast því mjög að hinn framkvæmdaglaði þingmaður (Forseti hringir.) skuli leggjast gegn þessu verkefni.