140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók fram að ég væri fylgjandi því að Vaðlaheiðargöng yrðu gerð. Ég er fylgjandi vegbótum og ég er fylgjandi miklum samgöngumannvirkjum hvarvetna á landinu. Vandinn er hins vegar sá að þegar við erum í erfiðri fjárhagsstöðu — við komum nánar inn á það í umræðum um samgönguáætlun á eftir — verðum við að forgangsraða verkefnum á forsendum sem byggt er á og þokkaleg samstaða hefur verið um að byggja á. Við gerð samgönguáætlunar hefur þetta verkefni lent mjög aftarlega miðað við önnur verkefni af svipaðri stærðargráðu. Það er staðreynd að þegar horft er til þeirra forsendna sem samgönguáætlun okkar er byggð á lendir þetta verkefni mjög aftarlega. Það er rétt að veggjöldin breyta þeirri mynd nokkuð en þá vil ég taka það inn í umræðuna um samgönguáætlun og ræða það í samhengi við önnur verkefni í þeirri áætlun en ekki horfa á þetta sem einhverja einangraða stærð.

Menn segja: Veggjöld munu borga. Og þeir sem hafa verið varfærnari en hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafa sagt: Veggjöld munu að minnsta kosti borga hluta framkvæmdarinnar. Það er alveg örugglega rétt, veggjöld munu borga hluta framkvæmdarinnar. Ég óttast engu að síður að líkur séu á því að kostnaður ríkisins verði töluvert mikill. Og það er ekki mjög góð fjármálastjórn að segja: Ja, við framlengjum bara í lánunum og sjáum til hvort við getum borgað seinna. Þetta er ekki mjög ábyrg fjármálastjórn. (Gripið fram í.) Við erum að tala um þær ákvarðanir, hv. þingmaður, sem hér verða teknar.

Ef allar bjartsýnustu spár og áætlanir um kostnað, (Forseti hringir.) umferð, vaxtakjör og annað ganga upp gæti þetta verkefni gengið upp, en áhættan er mikil.