140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri kannski réttara að lýsa því þannig að þessi framkvæmd verði fjármögnuð með lántökum og á ábyrgð ríkisins. Svo koma á móti veggjöld til langs tíma. Eins og hv. þingmaður þekkir hafa menn deilt um það hvernig þær tekjur skila sér í samanburði við kostnað sem hlýst af þeirri lántöku, m.a. fjármagnskostnað.

Það er ótvírætt að til þess að byrja á verkinu þarf lántökur af hálfu ríkissjóðs. Ríkissjóður þarf að vera í ábyrgðum fyrir há lán og það er ekki hægt að láta eins og slík lántaka hafi ekki áhrif á fjárhag ríkissjóðs, sérstaklega þegar horft er til þess að óvissuþættir varðandi framtíðina eru margir.

Hv. þingmaður nefndi Hvalfjarðargöng og þá er rétt að minnast þess að hann veit að aðstæður þar eru töluvert aðrar, stytting í Hvalfirði er margfalt meiri en þarna verður um að ræða, bæði í kílómetrum og mínútum, og hvatinn til (Forseti hringir.) að fara um göngin í staðinn fyrir að keyra fjörðinn er að jafnaði miklu meiri í Hvalfirði en fyrir norðan.