140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar vegur um Víkurskarð var gerður á sínum tíma var hægt að keyra yfir Vaðlaheiði og það er hægt enn þann dag í dag. Einhverjir héldu því fram að menn mundu halda áfram að nota þann ágæta veg vegna þess að styttingin væri ekki nema um fimm mínútur en leiðin væri mun fallegri. Engu að síður ákváðu menn að fara Víkurskarðið (Gripið fram í.) og gera það í dag.

Ég skil málflutning hv. þingmanna þannig að hann vilji taka málið á samgönguáætlun, láta veggjöld samt standa undir kostnaðinum en hann telur um leið möguleika á því að ríkissjóður taki lán fyrir öðrum framkvæmdum. Ríkissjóður stendur illa og ég tel ekki réttlætanlegt að ríkissjóður standi í auknum lántökum til að fjármagna verkefni hringinn í kringum landið nema þegar hægt er láta þá greiða fyrir samgöngubótina sem nýta sér hana, þ.e. þá þjónustu sem stendur til boða. Við ætlum væntanlega ekki að reisa hér hjúkrunarheimili og rukka notendur þess um þjónustugjöld sem eiga að standa undir byggingunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þetta vegna þess að ég varð fyrir vissum vonbrigðum þegar ég heyrði ræðu hans. Mér fannst rökstuðningurinn fyrir afstöðu hans afar undarlegur, sérstaklega í ljósi þess að ef við förum ekki þessa leið og ætlum að taka málið inn á samgönguáætlun hlýtur að vera sanngjarnt að ríkið fjármagni göngin 100%. Er það ekki rétt, (Forseti hringir.) hv. þingmaður?