140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir snjalla og hnitmiðaða ræðu. Ég tek svo sannarlega undir þau sjónarmið sem hann setti fram. Mér finnst hvimleitt að heyra að við séum á móti þessari framkvæmd, við sem tökum undir að Vaðlaheiðargöng séu brýn og góð samgöngubót en bendum á að við þurfum að fara okkur hægt vegna þess að fleiri vísbendingar en færri segja okkur að gera það. Það á til dæmis ekki að kippa þessu úr heildarsamhengi í gangagerð víða um landið. Við viljum hafa þessa framkvæmd í réttu samhengi, það er að minnsta kosti mitt sjónarmið.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir marga þætti málsins sem fólk hlýtur að staldra við. Ég sé að á dagskrá þingsins hér á eftir, 5. og 6. dagskrármál, er fjögurra ára samgönguáætlun og síðan samgönguáætlun 2011–2022. Ég spyr því hv. þingmann hvort ekki sé rétt að senda þetta áfram til fjárlaganefndar eftir þessa umræðu og hvort við í þingsal ættum ekki að taka afstöðu til þess hvort ekki sé rétt að senda þetta líka til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Til þess að við fáum heildarmyndina tel ég mikilvægt að málið fari til beggja nefnda.

Önnur spurning af minni hálfu er hvort ekki sé rétt að forgangsraða jarðgöngum í landinu upp á nýtt ef Vaðlaheiðargöng verða sett inn í samgönguáætlun. Þá verðum við taka afstöðu til þess hvaða jarðgöng eru brýnust, hvar á landinu sem þau eru, hvort sem það eru Norðfjarðargöng, sem ég tel afar mikilvæg, Vestfjarðagöng eða Vaðlaheiðargöng. Er ekki hluti af þeirri vinnu sem bíður þingsins að meta þá forgangsröðun (Forseti hringir.) upp á nýtt?