140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir athugasemdir hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sem hún flutti í andsvari sínu. Málið er í sjálfu sér einfalt. Þetta er ekki flókið mál en það er samt búið að stýra því þannig inn í þingið og setja upp þá stöðu að kominn er allt að því óleysanlegur hnútur. Hver ber ábyrgð á því? Ég get ekki sagt til um það. Þeir sem hafa haldið utan um málið í þinginu hafa ekki borið gæfu til að ná samstöðu um þetta mál eða ramma það þannig inn að þingmenn geti sætt sig við það.

Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, þær forsendur sem umhverfis- og samgöngunefnd hafði fyrir framan sig um að hér væri um að ræða einkaframkvæmd og enginn kostnaður mundi falla á ríkið eru augljóslega ekki til staðar. Það kemur svo skýrt fram í því hvernig fjármagna á verkefnið, það er útilokað að líta svo á að hér sé um einhvers konar einkaframkvæmd að ræða.

Ég tel ljóst að við í fjárlaganefnd eigum að halda áfram að kalla eftir þeim gögnum sem við höfum talið að vantaði upp á í þessu máli. Það er auðvitað hárrétt sem þingmaðurinn bendir á, það hefði mátt standa öðruvísi (Forseti hringir.) að því eftir hverju var kallað varðandi óháð álit. (Forseti hringir.) En ég verð að segja, virðulegi forseti, að það væri ágætt að reyna (Forseti hringir.) að laga þessa klukku, það er ekki nokkur maður sem getur fylgst með því hvað tímanum líður þegar þetta apparat virkar svona.

(Forseti (ÞBack): Ræðutími hv. þingmanns var liðinn og má kenna þar um klukkunni sem hleypur fram og til baka og er erfitt fyrir þingmenn að átta sig á tímanum. Forseti mun fylgjast með honum.)