140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, varðandi samgönguáætlunina tel ég að þetta verði að fara í þann farveg. Ég hef áhyggjur af því hvernig búið er að stýra málinu í þá stöðu á lokadögum þingsins að menn verði látnir standa frammi fyrir þeim valkosti að þurfa að segja já eða nei við þessu verkefni án þess að búið sé að koma því í þann búning að menn geti tekið ákvörðun beint út frá verkefninu en lendi ekki í því að þurfa að taka ákvörðun vegna þess hvernig til þess er stofnað og hvernig á að fara með fjármuni ríkisins.

Ég er nefnilega sammála hv. þingmanni um að ég tel miklu brýnna að ráðast bæði í Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng. Það sem er þó sérstakt í þessu máli og gerir það að verkum að menn eru tilbúnir að skoða það með öðrum hætti er sú staðreynd að vilji sé til þess á svæðinu að taka upp veggjöld. Það breytir málinu og opnar aðra möguleika. Ég hef viljað skoða betur þá möguleika hvort hægt sé að nýta þar kosti einkafjármagnsins og aðkomu einkaaðila, í formi hlutafjár eða lánsfjár eða með hvoru tveggja. Þá skiptir auðvitað máli hvernig það er sett upp. Aðalatriðið er að við eigum að stýra þessu máli inn í samgönguáætlun og ef það er ekki hægt, og ef ekki er hægt að koma sér út úr þeirri vitleysu sem búið er að búa til varðandi það að kalla eigi augljósa fjárfestingu lán, er einboðið að þetta mál getur ekki og má ekki ganga fram. Vonandi eru aðrar leiðir og ég tel það í það minnsta einnar messu virði að sjá hvort hægt sé að finna aðrar leiðir. Ef það er ekki hægt stöndum við bara frammi fyrir þessum valkostum, þá verður hver og einn að eiga það við samvisku sína.

Ég vil að lokum taka það fram að það er rétt sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir um samgöngubætur víða um landið, fyrir mörg þessara byggðarlaga er um að ræða framkvæmdir sem eru þannig að það er spurning hvort byggð haldist eða ekki. Þetta eru ekki neinar lúxusframkvæmdir, þetta er ekki til að stytta (Forseti hringir.) mönnum leið eða auðvelda keyrslu. Þetta er bara spurning um það hvort byggðirnar standi eða ekki.