140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014 og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. Það er eitt nefndarálit um báðar áætlanir. Eins og gefur að skilja er þetta gríðarlega stórt mál og margir gestir komu fyrir vikið fyrir nefndina og einnig bárust margar umsagnir. Nefndin hefur sem sagt tekið á móti og tekið tillit til fjölmargra sjónarmiða sem fram hafa komið um þessar samgönguáætlanir.

Það er almennt mat meiri hlutans í nefndinni að vel hafi verið staðið að verki við undirbúningsvinnu og stefnumótun við samgönguáætlun og að aukinnar fagmennsku hafi gætt í því vinnuferli sem gerð samgönguáætlunar er. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í áætluninni um að stefnt skuli að jákvæðri byggðaþróun á grundvelli skilgreiningar á grunnneti samgöngukerfisins sem nái til alls landsins og miði að greiðum, öruggum, hagkvæmum og umhverfislega sjálfbærum samgöngum með aðgengi og hreyfanleika í samgöngukerfinu í forgrunni. Nefndin leggur líka áherslu á og tekur undir þau sjónarmið sem greina má í áætluninni um hagkvæmni í rekstri og uppbyggingu samgöngukerfisins og vekur í því samhengi athygli á mikilvægi umhverfislega sjálfbærra samgangna.

Meðal þeirra verkefna sem meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á eru tengivegir undir liðnum „tengivegir, malbik“ því að það er ljóst að framkvæmdir við tengivegi gagnast landsmönnum og verktökum alls staðar á landinu og það er mikið kallað eftir slíkum úrbótum. Jafnframt leggur meiri hlutinn ríka áherslu á að viðhaldi þeirra samgöngumannvirkja sem fyrir eru sé vel sinnt enda ljóst að viðhald núverandi vegakerfis líður jafnan fyrir of ríka áherslu á nýframkvæmdir. Fram kom á fundum nefndarinnar að talsvert vantar upp á að nægt fé sé fyrir hendi til að sinna viðhaldi vega með fullnægjandi hætti, en skortur á viðhaldi kemur niður á flutningsgetu og umferðaröryggi á vegum og kostnaður við að koma vegakerfinu aftur í viðunandi horf getur reynst margfaldur þegar fram í sækir. Þess vegna leggur meiri hlutinn áherslu á þetta atriði og að leitað verði leiða til að hægt sé að sinna nauðsynlegu viðhaldi á áætlunartímabilinu, ekki síst í ljósi umferðaröryggissjónarmiða og þess að dýrmætar fjárfestingar glatist ekki. Meiri hlutinn áréttar einnig mikilvægi þess að vetrarþjónusta sé tryggð. Við teljum alveg ljóst að gert hafi verið ráð fyrir of litlu fjármagni til lágmarksþjónustu yfir veturinn, a.m.k. sums staðar á landinu, t.d. vegna snjómoksturs og hálkuvarna víða. Það kemur niður á umferðaröryggi og eðlilegri þróun atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni, en þess má líka geta að aukning ferðamannaumferðar og lenging ferðamannatímans kallar auðvitað á betri þjónustu við vegi og meira viðhald á þeim.

Í samgönguáætlun er mikil áhersla á umferðaröryggi sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar tekur fagnandi enda teljum við brýnt að stefna beri markvisst að því að auka öryggi í samgöngum. Það hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnvalda á hverjum tíma að draga sem mest úr líkum á alvarlegum slysum og banaslysum. Í því samhengi var mikið rætt í nefndinni um hina svokölluðu núllsýn í umferðaröryggi sem gengur út á að allar aðgerðir sem lúta að samgöngum á landi miði að því að enginn láti lífið í umferðinni. Auðvitað má segja að það sé kannski draumsýn að við getum einhvern tímann horft fram á það að umferð á Íslandi sé banaslysalaus en hvað sem því líður er það auðvitað sjálfsagt markmið sem stefna beri að enda ekkert jafnmikilvægt og að reyna að fækka alvarlegum slysum eins og kostur er.

Meiri hlutinn leggur líka áherslu á mikilvægi þess að eðlilegt og sanngjarnt jafnvægi sé í áætluninni, þ.e. að tekið sé ríkt tillit til byggðasjónarmiða þar sem tiltekin svæði landsins búa enn við algjörlega óviðunandi samgöngur. Að því leyti erum við Íslendingar nokkuð langt á eftir þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við hvað varðar uppbyggingu á grunnneti samgangna. Meiri hluti samgöngunefndar tekur undir þá stefnumótun að forgangsröðun framkvæmda taki mið af því að efla sveitarfélög og styrkja hvert svæði sem og landið allt. Stytting ferðatíma, uppbygging vega með bundnu slitlagi og gerð jarðganga til að leysa af hólmi erfiða fjallvegi og skapa betri skilyrði fyrir jákvæða byggðaþróun og eflingu einstakra atvinnu- og þjónustusvæða er það sem stefna ber að. Í því samhengi áréttar meiri hlutinn líka mikilvægi þess að við forgangsröðun framkvæmda sé tekið mið af brýnni þörf einstakra svæða fyrir bættar samgöngur. Í því sambandi er lögð sérstök áhersla á bættar samgöngur á Vestfjörðum en við blasir að þar eiga íbúar ríkulegt tilkall til að vera settir í forgang í þessum efnum.

Þá telur meiri hluti nefndarinnar einboðið við núverandi aðstæður að við forgangsröðun verkefna sé litið til atvinnusköpunar og þess vegna leggur nefndin til nokkrar breytingar sem miða meðal annars að því að ráðast fyrst í mannaflsfrek verkefni. Þannig er lagt til að framkvæmdum við brúarsmíði sé flýtt en hún er meira atvinnuskapandi en gerð flestra annarra samgöngumannvirkja.

Loks leggur meiri hlutinn áherslu á að búið verði vel að flugsamgöngum til og frá landinu og einnig innan lands. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir áform um að færa eignarhald flugbrauta á Keflavíkurflugvelli til Isavia og að árlega verði að meðaltali að minnsta kosti 500 millj. kr. af sjálfsaflafé félagsins varið í framkvæmdir við flugbrautir. Samgönguáætlun tók nokkrum breytingum við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að beina viðbótarfé til samgöngumála á því árabili sem áætlunin tekur til, ekki síst með það fyrir augum að flýta fjárfrekum verkefnum sem ella hefðu tafist. Þetta var gríðarlega mikilvægt skref sem auðvitað hangir að hluta til saman við annað mál sem við höfum til umræðu hér í þinginu, hið svonefnda veiðigjaldafrumvarp sem á að tryggja ríkissjóði um það bil 15 milljarða kr. tekjur í ríkissjóð á næsta ári. Fyrir þá fjármuni er auðvitað hægt að veita innspýtingu í mannaflsfrekar framkvæmdir, framkvæmdir sem styrkja innviði eins og stór samgöngumannvirki. Það var því fagnaðarefni að sú leið opnaðist en auðvitað eru lyktir þeirrar áætlunar og þeirra breytingartillagna sem samgöngunefnd hefur núna lagt til háðar því að spár um tekjuöflun standist. Gangi þær allar eftir verður hægt að flýta jarðgöngum og öðrum brýnum samgöngubótum og eins og ég sagði taka tillögur meiri hlutans mið af þessum breyttu forsendum.

Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til að tillögurnar verði samþykktar með breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstökum þingskjölum en af helstu breytingartillögum má nefna að undir liðnum „tengivegir, malbik“ bætist árlega 400 millj. kr. við 500 millj. kr. fjárveitingu við lagningu bundins slitlags á tengivegi vítt og breitt um landið.

Við leggjum einnig til að árleg fjárveiting að upphæð 100 millj. kr. verði lögð fram til breikkunar einbreiðra brúa. Enn fremur að á fyrsta og öðru tímabili 12 ára áætlunarinnar verði bætt 100 millj. kr. árlega við fjárveitingu til hjóla- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu.

Við viljum flýta hluta framkvæmda á Hellisheiði um eitt ár. Við viljum flýta framkvæmdum við Hornafjarðarfljót um eitt ár, gerð nýrrar brúar á Ölfusá um þrjú til fjögur ár, gerð Arnarnesvegar frá Rjúpnaheiði að Breiðholtsbraut um að minnsta kosti eitt ár. Við viljum flýta gerð og endurbótum á vegi frá Þingvallavegi að mynni Kollafjarðar um tvö til þrjú ár, flýta gerð lagningar bundins slitlags á Kjósarskarðsvegi um tvö til fjögur ár og endurgerð Uxahryggjavegar með bundnu slitlagi. Við viljum leggja bundið slitlag á Skálafellsveg, flýta endurgerð Snæfellsvegar á Fróðárheiði með bundnu slitlagi um tvö ár, flýta framkvæmdum við Dynjandisheiði inn á framkvæmdatímabilið 2015–2018, en sú framkvæmd var upprunalega á áætlun eftir 2018.

Við viljum líka bæta við fjármagni vegna snjóflóðaskápa á Djúpavegi í Súðavíkurhlíð, flýta framkvæmdum við endurgerð vegar og brúar á Bjarnarfjarðará um að minnsta kosti fjögur ár, flýta endurgerð vegar um Veiðileysuháls og endurgerð Skagastrandarvegar frá Hringvegi að Þverárfjallsvegi og um Laxá. Við viljum að brú á Skjálfandafljóti á Norðausturvegi verði flýtt um að minnsta kosti tvö ár, endurgerð Bárðardalsvegar vestri með lagningu bundins slitlags verði flýtt, að framkvæmdum verði flýtt á Norðausturvegi milli Þistilfjarðar og Vopnafjarðar um eitt ár, að framkvæmdum verði flýtt við Borgarfjarðarveg og við Hringveg milli Skriðuvatns og Axarvegar um eitt tímabil, við Axarveg um eitt ár og Suðurfjarðaveg um eitt ár.

Jafnframt leggjum við til að fjármagn til nýbyggingar héraðsvega verði aukið um 50 millj. kr. á ári á þriðja tímabili 12 ára áætlunar. Við leggjum líka til að auka fjármagn til landsvega um 50 millj. kr. á ári á þriðja tímabili 12 ára áætlunar og að flýta framkvæmdum við Norðfjarðargöng um eitt og hálft ár sem og að flýta framkvæmdum við Dýrafjarðargöng þannig að þau færist yfir á framkvæmdatímabilið 2015–2018 og verði þá lokið eigi síðar en 2018.

Þá leggjum við til að verja 2,3 milljörðum kr. til byggingar nýs Herjólfs og til framkvæmda við Landeyjahöfn, þ.e. 1 milljarði kr. árið 2013 og 1,3 milljörðum kr. árið 2014.

Nefndin hefur rætt hugsanlega gerð Vaðlaheiðarganga og áhrif þeirra á samgönguáætlun, sem hefur reyndar verið til umræðu hér fyrr í dag en í því sambandi vísum við til sérstakar bókunar nefndarmanna hvað það mál varðar og fylgiskjala sem fylgja nefndarálitinu

Undir þetta álit skrifa Ólína Þorvarðardóttir, sem hér stendur, Þuríður Backman, Róbert Marshall, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður og Mörður Árnason.

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda öllu lengri ræðu um þetta nefndarálit, ég held að það tali fyrir sig sjálft og ég vísa til fylgiskjala með því. En nefndin óskar eftir því að taka málið inn til að minnsta kosti einnar umræðu áður en það kemur til endanlegrar afgreiðslu í þingsal. Hér er um stórt mál að ræða og enn eru ýmsir óvissuþættir sem geta haft áhrif á það. Ég nefni til dæmis þá fjárfestingaráætlun sem hér hefur verið til umræðu og það viðbótarfjármagn sem við höfum gert ráð fyrir að gæti komið hér til gagns þannig að ég óska eftir því, frú forseti, að málið gangi aftur til nefndar áður en það kemur til endanlegrar afgreiðslu í þingsal.