140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir mjög hjartnæma ræðu. Mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar ég hlustaði á allt það sem þessir hv. þingmenn ætla að gera fyrir kjósendur. Við viljum flýta framkvæmdum, við viljum klára, við viljum gera þetta og hitt. Þetta var virkilega mikið ánægjuefni og ég geri ráð fyrir því að úti um öll kjördæmi landsins séu núna að safnast atkvæði.

En þá kemur spurningin: Hver á að borga? Það kom fram í svari við andsvari að þetta væri tengt veiðigjaldinu eða veiðiskattinum. Sumt af því sem þessir hv. þingmenn vilja gera og gera þar með vel við kjósendur, og gladdi mig svona ósegjanlega, gildir ekki bara í eitt ár heldur í mörg ár, t.d. Herjólfur.

Nú kemur fram í frumvarpinu um veiðigjöld að tekjur hafa verið mjög sveiflukenndar undanfarin ár. Þær fara algjörlega eftir gengi og verðmæti sjávarafla og hvað veiðist mikið o.s.frv. Hvað gerist ef þessar tekjur verða miklu minni en menn ætluðu? Hvað gerist ef verð lækkar til dæmis í evrum út af vandræðum á evrusvæðinu, sem er mjög líklegt? Þá koma ekki inn þær tekjur sem menn ætluðu á fiskveiðiárinu sem hefst 2013. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað gerist ef frumvarpinu verður breytt? Nú er sagt að veiðigjaldið muni valda gjaldþrotum sjávarútvegsfyrirtækja um alla landsbyggðina og valda atvinnuleysi. Telur hv. þingmaður að atvinna sem skapast af þessum góðu áformum vegi upp á móti því sem tapast í sjávarútvegi?