140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er gríðarlega brýnt umræðuefni og aldrei þessu vant hefði verið ágætt að hafa aðeins rýmri tíma. Það er enginn vafi á því að efnahagsvandi Evrópu er ríkisfjármála- og skuldavandi ákveðinna þjóðríkja. Það er verið að glíma við bankakerfi á brauðfótum í mörgum löndum og síðan eru aðrir sem telja að rót vandans tengist meira stöðu sjálfs gjaldmiðilsins, evrunnar, og undirliggjandi veikleika í myntsamstarfinu. En um þetta eru vissulega skiptar skoðanir.

Efnahagsvandi evrusvæðisins er að sjálfsögðu áhyggjuefni okkar sem og allra annarra sem fylgjast með efnahagsmálum í heiminum, en þó ekki síður okkar sem eigum þarna mikilvægustu útflutningsmarkaði okkar. Vandi evrusvæðisins er því okkar vandi að hluta til, óháð því hvort við erum í viðræðum um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Það er nærtækt að nefna Spán í þeim efnum, ef bankakerfið þar hefði farið á hliðina þarf ekki að efast um að það hefði haft neikvæð áhrif á viðskiptahagsmuni okkar þar.

Ef við nefnum örstutt aðgerðir síðustu viku er það fyrst og fremst neyðarlánið til Spánar sem getur orðið allt að 100 milljarðar evra. Það vakti tímabundna bjartsýni en sú gleði virtist ætla að verða skammvinn, a.m.k. í gærkvöldi og framan af degi í dag, og liggur þar væntanlega fernt aðallega að baki. Það er enn óvissa um endanlega útfærslu lánafyrirgreiðslunnar. Það er í öðru lagi þannig að notkun á sjóðnum virðist vekja ákveðinn ótta hjá ákveðnum fjárfestum vegna þess ríkulega forgangs sem sjóðurinn hefur umfram aðra fjárfesta. Í þriðja lagi horfa menn á að skuldir Spánar með þessu láni munu nálgast um 90% af vergri landsframleiðslu og efasemdir vakna um að spænskt hagkerfi sé í ástandi til að greiða slík lán til baka, samanber gríðarlegt atvinnuleysi og fleiri erfiðleika þar á fasteignamarkaði. Loks er það þannig að þessi lánveiting sýnir svart á hvítu hversu nátengdur vandi bankakerfis álfunnar er ríkjunum og samstarfi þeirra.

Þessu til viðbótar koma svo áhyggjur af grísku kosningunum 17. júní næstkomandi og vissar vísbendingar um að farið sé að bera á fjármagnsflótta úr evrunni. Fram undir þetta hefur fjármagn aðallega flust til innan svæðisins frá Grikklandi og öðrum ríkjum til Þýskalands en nú ber á flótta út úr evrunni yfir til Sviss, Danmerkur og fleiri landa.

Seðlabanki Evrópu hefur kynnt viðamikla framtíðarsýn um bankabandalag í raun og veru sem á að byggja á þremur meginþáttum, þ.e. miðlægu eftirlitskerfi með fjármálastofnunum, sameiginlegu innstæðutryggingakerfi og mjög sterku sameiginlegu kerfi til að takast á við fallandi og fallna banka.

Hvað okkur varðar er staðan nokkuð önnur. Það má segja að Evrópa hafi verið í að minnsta kosti minni háttar krísu í eitt til eitt og hálft ár en það hefur ekki haft teljandi áhrif á Ísland og hagvöxt hér eins og kunnugt er. Ríkissjóður er vel fjármagnaður með ríkulegt laust fé og hefur nýlega lengt mjög í lánasafni sínu, og þar með í gjaldeyrisforðanum, með lántöku upp á 2 milljarða bandaríkjadollara á innan við einu ári til fimm og til tíu ára. Bankarnir eru fjármagnaðir innan lands með ríkulega lausafjárstöðu og mjög há eiginfjárhlutföll.

Gjaldeyrisvaraforðinn er ávaxtaður á um það bil þann tryggasta hátt sem mögulegt er. Það hefur verið farið yfir það og verður ekki séð að neinar ráðstafanir sé hægt að gera til þess að geyma hann á öruggari hátt en gert er í dag, vissulega gegn nokkuð lægri ávöxtun en hægt væri að fá á forðann ef menn þyrðu að taka meiri áhættu, en ég held að þessar sviptingar sýni okkur að það hafi verið hyggilegt að velja ýtrasta öryggi þegar gjaldeyrisforðanum hefur verið komið fyrir.

Loks eru það gjaldeyrishöftin sem tvímælalaust skapa hér ákveðið skjól með kostum sínum og göllum, því að hér er ekki hætta á hvorki fjármagnsflótta né fjármagnsinnstreymi sem getur orðið jafngilt vandamál í þeim löndum sem við eiga annað hvort að búa. Þannig er það.

Varðandi viðbúnað okkar að öðru leyti hefur verið farið yfir hann allan saman. Ráðherranefnd um efnahagsmál fylgist reglulega með framvindu mála. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið á grundvelli síns samstarfssamnings gera það sömuleiðis. Umboð nefndar um fjármálastöðugleika hefur nýlega verið endurnýjað á grunni nýrrar verklýsingar. Stýrihópur um losun gjaldeyrishafta hefur komið saman og fjallað um málið og lögð er almennt áhersla á að vakta stöðuna eins vel og kostur er.

Ég held að það megi því segja að okkar viðbúnaður og okkar aðstæður séu góðar en það þýðir ekki að draga úr því að haldi þessi vandi áfram að versna verður hann einnig í vaxandi mæli okkar vandi.

Varðandi áhrif af þessu á þær viðræður sem standa yfir um aðild að Evrópusambandinu er ekki hægt að segja að með beinum hætti hafi þetta áhrif sem slíkt. Hitt er augljóst að það hvernig Evrópusambandið vinnur úr þessum vanda og hvers eðlis Evrópusambandið verður innan kannski fárra mánaða mun að sjálfsögðu hafa áhrif á mat okkar í þeim efnum. Það er ekki ólíklegt að næstu (Forseti hringir.) til þrír mánuðir verði tíðindamiklir í þeim efnum, þ.e. Evrópa verður að fara að komast að niðurstöðu um afdrifarík mál (Forseti hringir.) eigi ekki illa að fara og við þurfum að skoða okkar stöðu og samskipti við þjóðirnar þar í því ljósi.