140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ákvörðun okkar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 byggði á þeirri staðreynd að við mátum það ekki hvað síst þannig að þörf væri á sterkari umgjörð fyrir gjaldmiðil okkar; við þyrftum sterkari gjaldmiðil. Sú afstaða er algjörlega óbreytt í dag. Það sést best á því að við erum í dag enn læst í viðjum gjaldeyrishafta og 75% atvinnurekenda í landinu telja sig ekki hafa trú á því að íslensk króna sé framtíðargjaldmiðill landsins.

Við sögðum þá að umgjörð evrunnar þyrfti að vera sterkari og umgjörð um fjármálakerfið þyrfti að vera sterkari og að ástæða bankahruns á Íslandi væri ekki hvað síst sú að regluverk Evrópusambandsins á sviði fjármálamarkaðar væri ekki nógu sterkt. Það var rétt þá og það er rétt enn þann dag í dag. Það hafa margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til dæmis haldið áfram að segja á undanförnum árum þegar við höfum rætt um innleiðingu á nýrri innstæðutryggingartilskipun. Þeir hafa réttilega sagt að það verði að vera fjölþjóðlegt innstæðutryggingakerfi til að standa undir regluverki á sviði fjármálamarkaðar á hinu evrópska efnahagssvæði.

Nú blasir við að Spánn er að lenda í áþekkri bankakreppu og þeirri sem við lentum í. Svarið við henni hlýtur að vera það að styrkja grunninn undir hina sameiginlegu bankastarfsemi á hinu Evrópska efnahagssvæði með sameiginlegu eftirlitskerfi, með sameiginlegu innstæðutryggingakerfi og með sameiginlegum lánveitanda til þrautavara og sameiginlegri umgjörð utan um það hvernig tekið er á fjármálafyrirtækjum í vanda.

Ísland hlýtur auðvitað, ef það ætlar að vera áfram aðili að hinum innri markaði Evrópusambandsins, hvort heldur er sem aðili að EES eða sem aðili að Evrópusambandinu, að vera aðili að þessu samstarfi því að það er gott fyrir Ísland. Við vitum það í ljósi reynslunnar frá 2008. Hitt er svo líka ljóst að sterkari umgjörð sem evran kallar á um meðferð ríkisfjármála er líka góð fyrir Ísland því að við vitum hvað lausatök í ríkisfjármálum kostuðu okkur á árunum 2003–2007. Þann leik viljum við ekki endurtaka.