140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[14:03]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eftir kreppuna miklu á fyrri hluta síðustu aldar var það viðbragð ríkjanna sem í henni lentu að loka landamærum sínum, horfa inn á við og reyna að hokra sjálft hvert ríki með tvær geitur og taugreftan sal eins og stendur í Hávamálum. Afleiðingarnar af þessu urðu þær að hallærið varð afar langvarandi og pólitískt sundurlyndi óx í öllum ríkjum sem að lokum leiddi til hins ægilega harmleiks sem við þekkjum frá 1939–1945. Þetta er ekki kostur núna og það sjá allir.

Í forustu Evrópusambandsins nú snýst umræðan einkum um þrennt. Þar fara annars vegar fram björgunarstörf sem við þekkjum vel og hins vegar er verið að reyna að huga að framtíðarskipan. Þetta snýst um aga, samábyrgð og frumkvæði. Aga sem við þekkjum úr stöðugleikasáttmálanum en við þekkjum líka úr Maastricht-reglunum, 3% hámarkshalli á ríkissjóði, skuldir ekki meiri en 60% af þjóðarframleiðslu. Gallinn er hins vegar sá að það hefur skort úrræði og aga til þess að ríkin virði mörkin, aga líka þegar kemur að samevrópsku fjármálaeftirliti, að innstæðutryggingakerfi sem menn tala um að bankarnir sjálfir verði að gjöra svo vel að fjármagna og að lánum til þrautavara, samábyrgð í því að ríkin ætlast til að Evrópusambandið sem slíkt komi til hjálpar einstökum ríkjum í vanda eða eru að ræða um það — þar er rætt um regluleg evruskuldabréf sem nýjan grundvöll fyrir fjármálakerfinu — og frumkvæði sem nú hefur hlotið mikla hylli við kosningu Hollandes í Frakklandi.

Breytir þetta eðli Evrópusambandsins? spyr frummælandi. Já, að einhverju leyti gerir það það. Það þéttir samstarf ESB-ríkjanna, evruríkjanna að minnsta kosti, leggur á þau meiri skyldur gagnvart bandalaginu í staðinn fyrir traustari efnahagslegan grundvöll, en það eru engar áætlanir uppi um að breyta sjálfu eðli sambandsins. Það verður enginn grundvallarmunur á því.

Þetta sem (Forseti hringir.) ég ræði hér — agi, samábyrgð, frumkvæði — þegar við lítum á það frá íslenskum sjónarhóli er þetta allt okkur í hag. Þegar (Forseti hringir.) evran hefur staðið af sér þetta veður og heimsendaspárnar hafa þagnað þá (Forseti hringir.) stöndum við uppi með það að á nýjum tímum horfum við (Forseti hringir.) í kringum okkur með hina (Forseti hringir.) ónýtu krónu gagnvart þessum (Forseti hringir.) lausnum.