140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[14:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sá vandi sem við er að etja verður ekki leystur með einhvers konar tæknilausnum. Hann er ekki bara tæknilegs eðlis. Um er að ræða grundvallarvanda. Þetta er grundvallarvandi sem snýr að því að ekki er hægt að hafa sameiginlega mynt á svæði sem lýtur ekki einni sameiginlegri pólitískri yfirstjórn. Það er raunverulega hin stóra lexía sem menn standa frammi fyrir núna. Þess vegna verður að breyta þessu fyrirkomulagi, ekki með einhverjum smáskammtalausnum, ekki með tæknilausnum, heldur með grundvallarbreytingu á eðli sjálfs sambandsins. Með því að horfast í augu við það að ef evran á að vera hin sameiginlega mynt þá verður að fylgja því sameiginleg pólitísk yfirstjórn. Með öðrum orðum: Sambandsríki Evrópu.

Ég var mjög ánægður að heyra þau orð hæstv. ráðherra að þessi þróun öll næstu mánuðina kallaði á að við Íslendingar skoðum stöðu okkar hvað varðar samskipti við ESB innan örfárra mánaða því að fram undan eru þessar stóru ákvarðanir á vettvangi sambandsins.

Það er líka rétt að horfa til þess, vegna þess sem hér hefur komið fram, að vandamálið, þ.e. bankakreppan og ríkisskuldakreppan eru mismunandi hliðar á sama pening. Það hvernig ríkin hafa verið skuldsett á þeirri forsendu að hægt væri að lána mismunandi ríkjum á sömu kjörum vegna þess að um var að ræða eina sömu myntina hefur haft afskaplega slæmar afleiðingar. Og það voru einmitt bankarnir sem voru að lána til landa sem í raun og veru báru ekki þá vexti sem var boðið upp á. Þetta voru falsvextir vegna þess að það var falskur grunnur undir myntinni. Það er auðvitað eitt af því mikilvæga sem við þurfum að horfast í augu við.

Því segi ég enn og aftur, virðulegi forseti — og ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram — að niðurstaðan hlýtur að vera þessi: Evrópusambandið mun breytast og mun breyta um eðli. Það mun fara í átt að sambandsríki eða að evran liðast í sundur. Þá stöndum við Íslendingar frammi fyrir þeirri stöðu (Forseti hringir.) og það er rétt að við tökum hér umræðu um það á þinginu og skoðum hvort það er áfram vilji á Alþingi til að halda áfram með þá umsókn sem var lögð fram (Forseti hringir.) að allt öðru sambandi en því sem er að verða til.