140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því, það þyrfti að setja fé í úttekt á kostum og göllum strandsiglinga, og hvernig strandsiglingum yrði hrint í framkvæmd þannig að það yrði hagkvæmt fyrir alla. Þetta er ekki mál sem ríkið getur ákvarðað ofan frá sem slíkt heldur þarf, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, samvinnu og skipulag milli fiskverkenda, útgerðarmanna, sveitarfélaga, smávöruverslunarinnar og fleiri aðila þannig að þetta nýtist sem best. Svo stöndum við alltaf frammi fyrir samkeppnismálunum en það er sjálfsagt að gera bara eins og með Landeyjahafnarferjuna og Herjólf og boða til útboðs í einhver ár um þessar siglingar. Ég tel að það sé brýnt að þeim verði komið á því vegakerfið líður fyrir þungaflutninga eins og menn þekkja sem hafa farið til dæmis norður á Akureyri og séð vegkanta og ásigkomulag (Forseti hringir.) víða á þeim vegum, burðarlagið þolir ekki þessa þungaflutninga.