140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:42]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir nefndarálit hans sem ég er í mörgum atriðum sammála. Mér hlýnar um hjartarætur þegar rætt er um vegabætur á Ströndum norður yfir Veiðileysuháls og Bjarnarfjarðarháls svo tvö dæmi séu nefnd, en Strandir norður hafa löngum verið olnbogabarn í vegagerð og viðhaldi vega á Íslandi og er það mjög miður. Þar er einar fegurstu sveitir landsins að finna og þar hefur ferðaþjónusta aukist sem betur fer.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni sem ræddi um fækkun einbreiðra brúa sem er gríðarlegt öryggisatriði fyrir íbúa úti á landi og sennilega eitt það mesta og besta sem við getum gert til að freista þess að fækka slysum. Þar verðum við að staldra við eins og hv. þingmaður gerir við brúna yfir Hornafjarðarfljót sem er sennilega dapurlegasta dæmið um ástand hringvegarins nú á árinu 2012. Það er furðulegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið að sú brú skuli enn þá standa með þeim ósköpum sem menn þurfa að reyna við að fara yfir hana og hv. þingmaður lýsti ágætlega.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri til að spyrja hv. þm. Atla Gíslason: Hefur hann skýringu á því af hverju allar einbreiðar brýr á landinu, á hringveginum, er að finna austan megin við Vík og austan megin við Vaðlaheiði? Þær er einvörðungu að finna öðrum megin á landinu. Er einhver skýring á því að mati hv. þingmanns?