140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðmundur Steingrímsson) (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum eftir 2. umr. Ósk kom um það við 2. umr. að nefndin tæki málið aftur til umfjöllunar vegna athugasemda sem fram komu við 23. gr. frumvarpsins sem kveður á um að við lögin bætist ný grein, 46. gr. a, þar sem fram komi að ef annað foreldri barns er látið eða bæði, foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn eða foreldri nýtur verulegrar takmarkaðrar umgengni, á barnið rétt á umgengni við nána vandamenn þess foreldris eða aðra nákomna barni, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.

Í 24. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 47. gr. laganna sem fjallar um úrskurð sýslumanns um umgengni. Lagt er til að í 7. mgr. verði kveðið á um að sýslumaður geti með sama hætti úrskurðað um umgengni barns við nána vandamenn eða aðra nákomna barni skv. 46. gr. a enda verði umgengni talin til hagsbóta fyrir barnið. Þá er lagt til að leita skuli umsagnar þess foreldris sem á umgengnisrétt við barn þegar við á.

Þegar 2. umr. stóð fyrir dyrum voru velferðarnefnd kynntar áhyggjur einstaklinga í samfélaginu af þessum ákvæðum. Nefndin fékk á sinn fund Gísla Björnsson og Þorvald Daníelsson sem útlistuðu fyrir nefndinni þær áhyggjur. Í stuttu máli má segja að áhyggjurnar hafi verið efnislega þær að ættingjar og aðrir þeir hópar einstaklinga sem tilgreindir eru í greinunum ættu einhverja kröfu á lágmarksumgengni við barn, sambærilega kröfu og kynforeldri ætti, og jafnvel að ættingjar og aðrir nánir barninu gætu á einhvern hátt erft rétt kynforeldris til lágmarksumgengni.

Velferðarnefnd fjallaði um málið og fékk þessa gesti á sinn fund. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að mikilvægt væri að koma með nefndarálit til að fyrirbyggja allan misskilning, til að gulltryggja algerlega að ákvæðin sem um ræðir séu ekki túlkuð á þann hátt. Hér er ekki um að ræða sambærilegan rétt og kynforeldri hefur til umgengni og þetta er ágætlega útlistað í nefndaráliti velferðarnefndar.

Í nefndarálitinu er vakin athygli á því að nokkuð annað orðalag er notað þegar fjallað er um umgengni ættingja. Umgengni ættingja er þess eðlis að henni má koma á með einhverjum reglubundnum hætti ef það er talið barninu til hagsbóta. Hins vegar er orðalagið þannig þegar um er að ræða umgengni kynforeldris við barn sitt þá er einungis réttlætanlegt að þeirri umgengni sé ekki komið á ef það er talið barninu andstætt eða talið andstætt hagsmunum barnsins. Það er mikilvægt að átta sig á þeim greinarmun á því orðalagi. Ákvæðið um umgengni barns við ættingja eftir að foreldri fellur frá, annað eða bæði til dæmis, er þarna inni vegna hagsmuna barnsins. Þetta er sem sagt réttur sem barnið hefur.

Vandlega er farið yfir það í nefndarálitinu að hér er ekki um að ræða rétt ættingja, skyldmenna eða annarra til að erfa einhvers konar lágmarksumgengni sem rétt kynforeldris. Svo er líka vert að árétta að þessar greinar sem fara inn í barnalögin fela í rauninni í sér afskaplega litlar breytingar frá gildandi rétti. Hér er verið að færa í lög þau sjónarmið sem hafa hingað til legið til grundvallar í umgengnismálum og með frumvarpinu er lagt til að þessi ólögfestu sjónarmið verði lögfest með vísan til skýrleika.

Nefndin telur ekki ástæðu til að gera neinar breytingartillögur á þessum ákvæðum og telur að þetta standi nokkuð skýrt, vekur til dæmis athygli á því að sett er inn í lögin að það skuli alltaf leita álits foreldris, ef foreldris nýtur við, þegar sýslumaður þarf að úrskurða um mögulega umgengni skyldmenna.

Nefndarálitið liggur fyrir og niðurstaða þess er sú að nefndin leggur til að málið verði samþykkt og leggur ekki til frekari breytingartillögur.

Birgitta Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykk álitinu. Undir nefndarálitið rita síðan allir viðstaddir fulltrúar í velferðarnefnd.