140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[15:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Þar sem ég átti þess ekki kost að vera viðstödd 2. umr. málsins langar mig til að segja nokkur orð. Með þeim breytingum sem nú er verið að gera á barnalögunum er fyrst og fremst verið að styrkja rétt barnanna sjálfra til umgengni við foreldra sína og einnig að styrkja réttinn, styrkja umgjörðina utan um sameiginlega forsjá og tryggja ramma um ráðgjöf og þjónustu við foreldra þegar deilur eru uppi um umgengni og forsjá barna.

Ég sé ástæðu til að þakka hv. framsögumanni málsins, Guðmundi Steingrímssyni, fyrir innlegg hans í allt þetta mál, hvernig hann hefur haldið á þessu, sem og nefndarmönnum öllum. Ég skrifaði undir nefndarálitið fyrir 2. umr. með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur að því, eins og fram kemur í nefndaráliti, að ég tel að það ætti að reyna fyrst á ráðgjöf, þau nýju ákvæði sem verið er að setja um skyldu til að njóta ráðgjafar eða nota ráðgjöf áður en dómarar fái sérstaka heimild til að dæma sameiginlega forsjá. En segja má að það álitaefni hafi verið útkljáð við atkvæðagreiðslu við 2. umr. sem ég tók ekki þátt í en ég taldi skylt að gera grein fyrir þessum fyrirvara mínum og þakka hv. nefndarmönnum fyrir vinnu við þetta mikilvæga mál.