140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:37]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af orðum hv. þingmanns má ráða að hún styður þá það frumvarp sem fyrir liggur um veiðigjöld því að fjármögnun þessara verkefna og annarra verður ekki fengin nema það frumvarp verði samþykkt og að útgerðin taki þar með þátt í að standa undir samfélagsverkefnum eins og lagt er til.

Hvað varðar Ölfusárbrú — þrátt fyrir það aukafjármagn sem kemur núna inn í samgönguáætlun þá er það ekki ótakmörkuð auðlind. Það er takmarkað fjármagn eftir sem áður og það er alltaf spurning um forgangsröðun verkefna innan stórverkefna, viðhaldsverkefna. Segja má að því fleiri stórverkefni sem sett eru inn þeim mun meira ryðst út af viðhaldi og minni verkefnum. Fjármagnið fer þá í þessi stórverkefni. Þess vegna er mikilvægt að hafa heildarsýn á samgönguáætlunina og gæta þess að minni verkefni og viðhaldsverkefni detti ekki út. Þarna tel ég að hafi verið forgangsverkefni, ef ekki frá þingmönnum kjördæmisins að mati Vegagerðarinnar og okkar sem stöndum að þessari áætlun, að raða verkefnunum Ölfusárbrú versus breikkun þjóðvegarins milli Hveragerðis og Selfoss, sem ég sannarlega tek undir að er mikil nauðsyn á að breikka eða fara í framkvæmdir þó ekki væri nema út frá öryggissjónarmiðum.