140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hefði hv. þingmaður náð að hlusta á alla ræðu mína og þær ræður sem ég hef flutt varðandi veiðigjaldsfrumvarpið á hefði hv. þingmaður áttað sig á því að ég styð ekki það mál. Ég er hins vegar ekki mótfallin þeim framkvæmdum sem hér eru en hef áhyggjur af því að fjármögnunin sé einfaldlega ekki til staðar.

Varðandi Ölfusárbrúna og breikkun vegarins milli Selfoss og Hveragerðis þá var ég einfaldlega að vekja athygli á því að mér finnst þetta ekki alveg fara saman við það meginsjónarmið sem við ætluðum að leggja til grundvallar, það stendur í plagginu að eigi að leggja það til grundvallar, þ.e. umferðaröryggið. Við erum með þennan kafla á hringveginum sem er varhugaverður með tilliti til umferðaröryggis en við veljum þá framkvæmd eina úr, að því er mér sýnist, á þeim lista þar sem fjallað er um að flýta gerð brúarinnar en seinka veginum. Ég get ekki séð að önnur verkefni sem bætast á þennan framkvæmdalista séu háð því að dregið sé úr öðrum verkefnum sem eru þá tengd því verki. Þess vegna eru vangaveltur mínar þær: Erum við að forgangsraða með tilliti til umferðaröryggis eða eru einhver önnur sjónarmið sem hér liggja að baki? Auðvitað eru alltaf fleiri en eitt sjónarmið þegar verið er að forgangsraða, en ég hef nokkrar áhyggjur af þessu.