140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum saman tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 sem er í raun og veru stefnumörkun og markmið til langtíma, og síðan verkefnaáætlun fyrir árin 2011–2014 sem byggir á samgönguáætlun fyrir 2011–2022.

Við fórum í fyrri umræðu yfir margt í þessum samgönguáætlunum og ég ræddi þar og ítreka enn, virðulegur forseti, að öryggi í samgöngum verður að vera nr. eitt og samgönguáætlun ætti að vinna út frá því. Að stórum hluta er farið eftir slíku en engu að síður liggja fyrir ákveðnar öryggisathuganir og í ljós kemur að víða er pottur brotinn, jafnt á eldri vegum sem og í nýrri framkvæmdum. Væntanlega mun Vegagerðin fara í þau verkefni samkvæmt nefndaráliti og ákvörðunum þingsins.

Það sem hins vegar vekur undrun mína, virðulegi forseti, er verklagið, svo ég leyfi mér að segja það. Hér eru lagðar til breytingar og verið er að bæta í, og ég ætla ekki að draga úr því að þetta eru góðar framkvæmdir, en það er gert í trausti þess að annað frumvarp sem ekki hefur verið afgreitt úr þinginu verði samþykkt óbreytt til að hægt verði að ráðast í þær framkvæmdir sem hér eru lagðar til. Stundum finnst mér þetta verklag vera með öfugum formerkjum. Ég hefði talið skynsamlegt að fyrst væri gengið væri frá því frumvarpi sem margar þessar tillögur byggja á í raun og veru, þannig að það sé sagt.

Ég vil engu að síður leyfa mér að fagna þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar fram og koma fram í nefndaráliti meiri hlutans vegna þess að mér sýnist að hér sé farið eftir því sem ég hef sagt um öryggi í forgangsröðun og áhersla lögð á það sem við kannski öll höfum viljað en situr oftar en ekki á hakanum, en það er viðhald vega og viðhald bygginga. Lagðir eru til auknir fjármunir til einmitt þeirra þátta og ég held að það sé afar mikilvægt. Það á að taka á tengivegum vítt og breitt um landið og leggja á þá malbik og bæta við fjármunum í það verkefni fyrir utan að bæta í verkefnið um að fækka einbreiðum brúm vítt og breitt um landið. Þetta hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir alla og samgöngubót fyrir alla landsmenn. Þegar stefna er mótuð í samgöngum horfum við kannski í flestum tilvikum til byggðaþróunar í landinu, að við komumst til og frá eftir greiðum og öruggum samgöngukerfum, og þau séu hagkvæm eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans og umhverfislega sjálfbær og í forgrunni sé höfð hagkvæmni í rekstri og uppbyggingu samgöngukerfisins. Vonandi náum við að stíga þessi skref og stíga þau saman.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína langa. Ég vil aðeins líta til þess sem hér er lagt til og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Fyrir utan það sem ég hef sagt um tengivegi og um einbreiðar brýr er hér veitt aukið vegafé til hjólreiðastíga og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil sérstaklega fagna því að fjölga eigi hjólreiðastígum og tengja sveitarfélög saman þannig að sá ferðamáti ætti að geta orðið öruggari á höfuðborgarsvæðinu eftir þær framkvæmdir. Það ber að fagna því sem vel er gert.

Ég vil jafnframt lýsa yfir ánægju minni með að menn ætli samkvæmt þessum tillögum að flýta lokum gerðar Arnarnesvegar frá Rjúpnaheiði að Breiðholtsbraut um í það minnsta eitt ár. Þar að auki ætla menn að flýta gerð 2+1 vegar frá Þingvallavegi að mynni Kollafjarðar um tvö til þrjú ár vegna þess að það er ljóst að svokölluð Sundabraut er ekki inni í myndinni í náinni framtíð. Mér finnst það reyndar mjög dapurlegt, hún væri mikil samgöngubót, en hún er dýr og áhöld um hvar og hvernig hún eigi að liggja. Þess vegna skiptir miklu máli að 2+1 vegi sé flýtt frá Þingvallavegi að Kollafirði vegna þess að öll umferð vestur úr og norður úr fer um þetta svæði.

Ég vil líka, virðulegur forseti, nefna að frá því að ég kom á þing 2007 hef ég rætt um gildi Kjósarskarðsvegar. Mikilvægi hans sýndi sig fyrir stuttu þegar slys varð á veginum um Kjalarnes. Kjósarskarðsvegur er ákveðinn öryggisventill fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og þá sem koma að vestan og norðan verði slys og þurfi að loka veginum frá Kjalarnesi og inn í Mosfellsbæ og inn til Reykjavíkur. Þess vegna fagna ég sérstaklega að lagt er til að flýtt verði lagningu bundins slitlags á Kjósarskarðsveginn þótt ég hefði að sjálfsögðu kosið að það verkefni hefði haft meiri forgang en fram kemur í þessari áætlun.

Ég held líka að það hljóti að vera fagnaðarefni að menn ætli samkvæmt samgönguáætlun að flýta Norðfjarðargöngum sem eru mikilvæg samgöngubót fyrir Austfirðinga alla og þá sem fara um það landsvæði. Einnig er lagt til að flýta Dýrafjarðargöngum. Það er algerlega ljóst að hvor um sig er mjög brýn framkvæmd og fagnaðarefni að það skuli viðurkennt í þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til.

Ég ætla að svo stöddu, virðulegur forseti, ekki að láta í ljós sérstaka skoðun mína á Vaðlaheiðargöngum aðra en þá að verkefninu sjálfu er ég hlynnt en ég get ekki að svo komnu máli sætt mig við þá aðferð sem beitt er hvað það varðar. En göngunum sjálfum er ég hlynnt og tel að þau séu samgöngubót og líka til þess gerð að efla atvinnu á þessu svæði vegna þess að við vitum að samgöngur skipta fólk ótrúlega miklu máli þegar uppbygging atvinnu er annars vegar. Við getum einfaldlega tekið Hvalfjarðargöngin sem dæmi og séð þá breytingu sem varð í mínum gamla heimabæ sem og í Borgarnesi með tilkomu þeirra.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi og segi enn að þessar breytingar eru lagðar til meðal annars vegna þess að ætlunin er að innheimta veiðigjöld. Það frumvarp er ekki orðið að lögum. Ég hefði kosið að áður en menn legðu fram slíka áætlun sem þessa hefðu menn gengið frá fjármögnun hennar. En margt er hér vel gert, virðulegi forseti, og hugsunin að baki henni er góð og að því leyti er ég sátt og fagna þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar til.