140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[15:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun og er það vel. Þetta mál er nokkuð síðbúið. Ætli það sé ekki í kringum eitt ár síðan það átti að koma fram og við erum að ræða samgönguáætlun fyrir árin 2011 og 2012 þannig að við erum að verða búin með helminginn af því tímabili sem þessi áætlun á að ná til.

Ég hef talað undanfarin ár um að allt of lítið sé lagt til fjárfestinga í innviðum, þ.e. í vegasamgöngum og öðru er lýtur að samgöngum. Fyrir breytingartillögurnar var áætlað í stofn- og tengivegi færu samtals einungis tæpir 5 milljarðar á þessu ári, tæpir 4 á þar næsta og rétt rúmlega 3 á árinu 2014. Ég tel að það sé mikil skammsýni að draga svo mikið úr framkvæmdum, ekki eingöngu vegna þess að það er nauðsynlegt að halda áfram uppbyggingu vegakerfisins heldur einnig vegna þess að sú atvinnustarfsemi sem þrífst á vegagerð og samgöngubótum hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarin ár. Nú er svo komið að vélar og tæki sem notuð eru við að byggja upp vegi hafa að stórum hluta verið seld úr landi vegna þess að hér hafa ekki verið nein verkefni fyrir þau og smáverktakar hringinn í kringum landið hafa einn af öðrum verið að fara á höfuðið eða hætta starfsemi.

Í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins sem bornar voru fram í október á síðasta ári við byrjun þingsins eða fljótlega eftir að þing hóf störf eftir hlé voru lagðar til miklar fjárfestingar í innviðum í samgöngum. Þar var bæði tekið til þess að fækka þarf einbreiðum brúm, það þarf að grafa jarðgöng og það þarf að byggja upp vegi. Í áætlunum okkar var gert ráð fyrir því að rúmum 50 milljörðum yrði varið í þetta á tveggja ára tímabili og þar af væru Vaðlaheiðargöng, sem væru einkaframkvæmd, um það bil 20% þannig að úr ríkissjóði færu í kringum 40 milljarðar.

Eins og alþjóð veit hlaut þingsályktunartillaga okkar sem innihélt efnahagsáætlunina ekki brautargengi. Menn vildu halda sig við að framkvæma lítið á næstu árum og báru við fjárskorti ríkissjóðs. Það er ljóst að þetta er að draga dilk á eftir sér nákvæmlega eins og ég lýsti. Verktakar hafa margir hverjir hætt störfum, tæki hafa verið seld úr landi og það sem er kannski alvarlegast er að vegakerfið er að drabbast niður. Vegna starfa minna þarf ég oft að keyra hringveginn og hann er farinn að láta allverulega á sjá. En þannig er mál með vexti að ef ekki er sinnt nauðsynlegu viðhaldi, stórviðhaldi getum við sagt, þ.e. að halda við undirbyggingu vega, er mikil hætta á ferðum. Það er hægt að sleppa því viðhaldi eða vanrækja það í nokkur ár en þegar kemur að skuldadögum hrynja stórir hlutar vegakerfisins og það er gríðarlega dýrt að byggja það upp aftur. Við erum að sjá slíkar skemmdir á nokkrum stöðum hér á landi og það blasa við gríðarlega mikil fjárútlát vegna vanrækslu á næstu árum.

Nýverið var lögð fram fjárfestingaráætlun þar sem lagt er til að göngum verði flýtt, í fyrsta lagi Norðfjarðargöngum sem eru algerlega nauðsynleg og er það vel, en ekki er gert ráð fyrir þeim í þessari samgönguáætlun. Aftur á móti setur maður mjög mikil spurningarmerki við alvöruna í því máli vegna þess að fjármögnunin hefur á engan hátt verið tryggð. Jafnframt er lagt til að flýta Dýrafjarðargöngum en það er ekki í hendi. Það leiðir hugann að því að þau eru mörg loforðin um göng og samgöngubætur. Þar ber kannski helst að nefna að í rúman áratug, í einn og hálfan áratug, hafa loforð um Seyðisfjarðargöng verið algerlega vanefnd. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson mun bera fram breytingartillögu í tengslum við þetta mál þar sem verður lagt til að Seyðisfjarðargöng verði í samgönguáætlun sögð vera næst á eftir Norðfjarðargöngum. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess máls og verð meðflutningsmaður hans á breytingartillögunni.

Af því að ég er þingmaður Norðausturkjördæmis tel ég rétt að ég reki aðeins vegaframkvæmdir og þörfina á vegabótum í því kjördæmi. Að rekja slíkt fyrir allt landið er ekki vinnandi vegur í stuttri ræðu auk þess sem ég er langbest kunnugur samgöngum á norðaustursvæðinu og hver forgangsröðin ætti að vera þar eftir mörg og merkileg viðtöl við íbúana á svæðinu, eftir að hafa notað samgöngur á þessu svæði mjög mikið undanfarin ár og auðvitað styðst ég líka við samgönguáætlun í því efni. En það er ljóst að samkvæmt þessari samgönguáætlun á sáralítið að fjárfesta í samgöngumannvirkjum á tímabilinu.

Ef við tökum árið 2013, vegna þess að 2011 er liðið og 2012 er hálfnað og þar hafa verið teknir frá fjármunir til að fjárfesta, er eingöngu ráðgert að ráðast í Dettifossveg á næsta ári auk þess sem 60 milljónir eru teknar til undirbúnings verka utan áætlunar. Sama er að segja um árið 2014. Það eru 600 milljónir sem fara í Dettifossveg, 50 milljónir í Jökulsá á Fjöllum og 60 milljónir í undirbúning verka utan áætlunar, væntanlega í rannsóknir vegna jarðganga á norðaustursvæðinu. Það er algerlega ljóst að þetta er allt of lítið og eflaust þess vegna er gert ráð fyrir Norðfjarðargöngum í fjárfestingaráætluninni. Þau eru mjög þörf vegabót og munu tengja Norðfjörð betur inn í byggðakjarnann sem Norðfjörður er í, þ.e. Fjarðabyggð, þannig að það er vel, sérstaklega ef staðið verður við það sem er alls óvíst vegna þess að sú fjármögnun sem á að standa undir Norðfjarðargöngum er ekki í hendi enn þá.

Ef við lítum til Dettifossvegar er ágætt að áætlað sé að fara í hann á næsta ári en ég hefði talið brýnt að flýta þeim framkvæmdum vegna þess að á tyllidögum tölum við um að byggja upp ferðaþjónustu og samgöngur eru eins og allir vita lykillinn að uppbyggingu ferðaþjónustu. Ég hefði haldið að það væri góður stuðningur við þá viðleitni að byggja upp ferðaþjónustu að Dettifossvegi yrði flýtt eins og hægt væri. Jafnframt má nefna vegarkafla eins og undir Víkurskarð. Hér hafa göng undir Vaðlaheiði farið í tvær umræður og þau bíða 3. umr. og atkvæðagreiðslu. Það er meiningarmunur á milli manna og kvenna í öllum flokkum hvort fara eigi í þá framkvæmd miðað við þá fjármögnunaraðferð sem verður notuð en það bíður atkvæðagreiðslu og væntanlega skýrist það á allra næstu dögum.

Þá er að nefna framkvæmdir eins og Öxi. Í samgönguáætlun er hvergi talað um Öxi né tengileiðir á Eyjafjarðarsvæðinu, það er hvergi talað um uppbyggingu nauðsynlegra tengivega þar auk fleiri framkvæmda sem æskilegt væri að ráðast í.

Eins og ég sagði áðan tel ég að Seyðisfjarðargöng eigi að vera næst á eftir Norðfjarðargöngum. Þegar Norðfjarðargöngum er lokið verði strax byrjað á Seyðisfjarðargöngum eða göngum undir Fjarðarheiði. Þeim göngum er búið að lofa Seyðfirðingum í einn og hálfan áratug en það virðist vera sem svo að stjórnmálamönnum sé ansi hætt við að svíkja þau loforð og menn hafa farið að tala um mörg önnur göng á undan þeim, bæði á sunnanverðum Vestfjörðum, Dýrafjarðargöng, Hjallagöng og fleiri göng auk mikilla annarra framkvæmda. Ég vil ekki etja saman landsfjórðungum heldur vil ég eingöngu að menn standi við gefin loforð.

Talandi um tengivegi þá hafa ýmsar smáframkvæmdir verið vanræktar sem jafnvel var búið að lofa. Við sjáum skýrt dæmi um það í Efri-Jökuldal, þar er þriggja kílómetra kafli sem íbúum þar var lofað þegar vegurinn upp á Jökuldalsheiðina var færður, vegarspotti sem er einungis þrír kílómetrar á milli Gilsár og Arnórsstaða. Þetta mundi flokkast sem smáframkvæmd. Hún telur ekki margar milljónir en er nauðsynleg fyrir íbúana á þessu svæði og ekki eingöngu nauðsynleg heldur var íbúunum lofuð þessi framkvæmd en eins og svo oft áður virðast stjórnmálamenn vera ansi fúsir til að lofa en það er aftur á móti erfiðara um efndirnar.

Ég vil nefna aðra hluti eins og ferjumál í Mjóafirði. Þau eru í hálfgerðum ólestri og ríkið ætti að koma betur að þeim. Ég tel að núna eftir að við erum búin að fá glæsilegar samgöngur á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sé kominn tími til að bæta samgöngurnar frá Ólafsfirði yfir til Dalvíkur og í Eyjafjörð. Ég held að kominn sé tími til að leggja drög að nýjum endurbættum og nútímalegum göngum sem geti þjónað þessum svæðum, Ólafsfirði og Siglufirði eða Fjallabyggð mun betur en nú er raunin.

Nú er ræðu minni að ljúka en ég hef gert einstakar framkvæmdir á norðaustursvæðinu að umtalsefni. Örugglega gleymi ég einhverjum en þessar koma upp í hugann þegar þessi áætlun er skoðuð. Góðar og traustar samgöngur eru mesta hagsmunamál byggðanna sem hægt er að ráðast í og ef vilji stjórnmálamannanna liggur til þess að styrkja byggðirnar í landinu á að verja meiri fjármunum til að styrkja samgöngur, gera leiðir á milli staða greiðari, fljótfarnari og öruggari. Ef það er markmiðið, sem ég held að flestir geti fallist á, er afar skrýtið að sjá þær tölur sem hér hafa verið settar á blað; rétt tæpir 4 milljarðar 2013 og rúmlega 3 milljarðar 2014. Þetta er að nafnverði þannig að þessir peningar verða ekki svona mikils virði þegar kemur að framkvæmdunum ef farið verður út í þær.

Hafandi sagt þetta held ég að ég ljúki máli mínu í bili um samgönguáætlun næstu tveggja ára. Þetta er fjögurra ára áætlun en það eru þegar liðin tvö ár. Ég mun koma hingað aftur upp og ræða betur hluti sem ég náði ekki að ræða núna, t.d. flug á Egilsstaði og flug á Akureyri. Ég vil fagna því að nú sé aftur hafið flug á Húsavík og vona ég svo sannarlega að íbúarnir þar nýti þær samgöngur vel þannig að tekjugrunnur sé sem best settur undir það fyrirtæki, einkafyrirtæki sem stendur að þeim samgöngum. Þar lýk ég máli mínu um samgönguáætlun í bili.