140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[16:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þingmanni, sem kallaði á þann sem hér stendur, að nú förum við yfir næsta svæði. Það er gjarnan þannig með samgöngumál að farið er yfir þau svæðisbundið. En að sjálfsögðu erum við líka með heildarmyndina í huga þegar við ræðum þetta risastóra mál.

Þó að það kunni að hljóma undarlega ætla ég samt að byrja sunnan heiðar. Það er vitanlega eitt af stærstu verkefnunum í samgöngumálum að farið verði í að skoða aðgengið út úr borginni, að Vesturlandsvegur verði þannig gerður að auðveldara verði að komast til og frá höfuðborginni. Það skiptir alla miklu máli. Það skiptir ekki síst máli vegna þess að hér er nánast öll sú þjónusta sem landsbyggðarmenn þurfa að sækja. Því er mikilvægt að hafa greiða leið í þá þjónustu meðan ekki er meiri vilji til staðar en raun ber vitni að koma þjónustunni meira út á land.

Þegar við ræðum samgöngumál erum við að sjálfsögðu að ræða þau í stóru samhengi. Í þessari fyrstu ræðu um þetta mál ætla ég einmitt að fara yfir mikilvægi samgangna og koma inn á einstök atriði. Síðar í umræðunni ætla ég kannski að fara ofan í einstök verkefni og breytingartillögur og þá að sjálfsögðu í kjördæmamálin og það allt saman.

Fyrst vil ég nefna að þjóðvegur 1 er víða, svo að það sé nú sagt eins og það er, í skelfilegu ástandi. Það er reyndar mjög athyglisvert fyrir okkur sem keyrum hann mikið og reglulega að sjá hvernig ástand hans versnar milli missira. Í honum eru sigdældir, brotið úr köntum o.s.frv. Sem betur fer er Vegagerðin alltaf að vinna að einhverjum lagfæringum en það er samt víða þannig að beinlínis er varasamt að mæta stórum bílum og hvað þá í vondum veðrum og við aðstæður sem eru kannski að einhverju leyti erfiðar. Þetta er okkar allra helsta tenging hringinn í kringum landið og er að sjálfsögðu óviðunandi að sjá hvernig samgöngumannvirkin eru víða.

Þegar við förum út af þjóðvegi 1 og keyrum inn í byggðarlögin sem tengjast honum versnar enn ástandið. Þá fyrst sjáum við hve mikið á eftir að gera mjög víða, ekki þó alls staðar, í vegtengingum þegar komið er út af þjóðveginum. Ef ég horfi á það kjördæmi sem ég kem úr þá er ástandið líklega einna skást á Snæfellsnesi. Það er orðið ágætt norður á Ísafjörð. En ef við förum í Dalina, suðurfirðina, vegina upp af þjóðveginum í Húnavatnssýslu, í Skagafirði, í Borgarfirði, versnar ástandið heldur betur. Verður að segjast alveg eins og er að í allt of mörg ár hafa þeir vegir sem ég taldi hér upp einhvern veginn verið utan garðs þegar kemur að því að horfa til framtíðar. Sjálfsagt er fé skammtað í allar þessar framkvæmdir og forgangsröðun hefur kannski verið önnur hjá stjórnvöldum og að sjálfsögðu verður að virða þá ákvörðun.

Það breytir því ekki að þessir vegir eru gríðarlega mikilvægir. Við sjáum til dæmis Vestfjarðaveg eða veginn suður úr Dölum og vestur á Patreksfjörð og Tálknafjörð, Bíldudal. Vissulega er verið að vinna töluvert mikið í þeim vegi núna enda kominn tími til því að í gegnum tíðina hefur ástandið vitanlega verið skelfilegt, með ólíkindum hvað íbúar og fyrirtæki á þessu svæði hafa þurft að búa við í mörg ár.

Það er líka sorglegt, herra forseti, að vita til þess að margir hafa lagt sig í líma við að koma í veg fyrir að vegabætur nái fram að ganga, vegabætur sem mjög skynsamlegt er að fara í. Við þekkjum öll sorgarsöguna varðandi það að leggja veg í gegnum hinn svokallaða Teigsskóg sem er að mínu viti ekki merkilegra kjarr en kjarr annars staðar á landinu svo að það sé bara sagt hér. Ég er búinn að ganga inn í þennan skóg, eða þetta kjarr, og skoða mig aðeins um — fyrir utan það að það heitir náttúrlega ekki allt Teigsskógur það svæði sem um er að ræða — og þau mótmæli sem eru uppi varðandi þennan veg eru eitt af því arfavitlausasta sem ég hef lengi séð. En það er eins og það er, ríkisstjórninni og fylgifiskum hennar hefur væntanlega tekist að eyðileggja þau áform. Úr því að staðan er sú sem hún er er mikilvægt að við einbeitum okkur að því að finna aðrar leiðir fyrir láglendisveg þarna vestur.

Sama má segja um vegtengingar á þessu svæði í hina áttina, þ.e. Laxárdalsheiði, Skógarströnd og Fellsströnd og fleiri vegi þarna vestur frá. Líklega er Laxárdalsheiðin sá vegur sem mest er farinn, ég hef reyndar ekki þessar tölur í kollinum, á eftir veginum á suðurfjörðunum. Það er mjög mikilvægt að sú tenging verði löguð hið fyrsta því að um Laxárdalinn er oft hægt að fara þegar erfitt er á Holtavörðuheiði fyrir utan það að á sumrin er þetta gríðarlega mikill ferðamannavegur.

Þá erum við komin að því að ræða vegina sem eru til dæmis í Miðfirði, fyrir Vatnsnesið og svo inn í dalina alla — þessa löngu dali inn á heiðar þar sem vegirnir eru mjóir, jafnvel niðurgrafnir, en mikið eknir. Ég nefni sem dæmi Hegranes í Skagafirði þar sem töluverð umferð er, ekki síst af tækjum og tólum og á veturna er farið þar um með skólabörn. Þessir vegir eru nánast ófærir vegna þess hversu holóttir þeir eru en þannig er það reyndar víða um land, lengi hefur verið beðið eftir einhverjum bótum.

Þær vegtengingar sem hér um ræðir eru lífæðar þessara samfélaga. Þetta eru lífæðar fyrir þá er sækja vinnu, þetta eru lífæðar fyrir vöruflutninga, þetta tengir fólkið saman. Það er að sjálfsögðu ein af forsendum þess að fólk vilji setja sig niður í sveitirnar eða í þessi smærri byggðarlög að samgöngur séu þokkalegar. Fyrsta vers er að vegasamgöngur séu þokkalegar og þær eru það varla í dag á marga staði.

Við þekkjum öll dæmið um Árneshrepp á Ströndum þar sem ófært er hluta úr ári. Það er vitanlega ófremdarástand, ekki síst þegar verið er að reyna að halda þar uppi atvinnu, landa þar sjávarafurðum og flytja þær svo landleiðina til vinnslu fyrir utan það að íbúarnir geta einangrast hluta úr ári. Að sjálfsögðu þarf að bæta úr þessu.

Flugsamgöngur spila svo inn í þetta líka. Því miður hefur það verið lenska undanfarið að draga úr styrkjum til flugsamgangna sem ég held að sé afar vitlaust að gera. Ég er ekki að tala um að endilega þurfi að fjölga flugvöllum frá því sem er í dag. Það þarf hins vegar að halda við og nýta þá sem til eru því að víða eru þetta samgöngur sem skipta miklu máli fyrir atvinnulífið, fyrir skólalífið. Fyrirtækin sem eru á þessum stöðum þurfa að sækja sér ýmsa þjónustu, koma pósti á milli hratt og örugglega.

Ég nefni mína heimabyggð, þar lagðist flug af núna. Það hefur haft mikil áhrif á staðinn, það verður að segjast alveg eins og er, ekki síst af því að á sama tíma ákváðu stjórnvöld að skera niður starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar þannig að fólk þurfti að fara meira á milli. Þetta er ekki gott. Það þarf að tryggja aftur flug á þetta svæði. Því ber hins vegar að fagna að það er komið á flug, t.d. á Húsavík eins og nefnt var hér, en ég vona að það styrki það svæði. Hins vegar er flug hætt austur á land sem er ekki gott, Vopnafjörð og þangað austur. Svo þurfum við að sjálfsögðu að sjá til þess að áfram verði flogið á þessa staði í Norðvesturkjördæmi eins og Bíldudal og Gjögur þar sem verið er að þjónusta íbúa með flugsamgöngum þegar vegasamgöngurnar eru eins og þær eru.

Hver er framtíðarsýn stjórnvalda þegar kemur að samgöngumálum? Ég er ekki viss um að hún sé svo skýr. Ég er ekki viss um að stjórnvöld geri sér almennt grein fyrir því hversu miklu þetta skiptir þegar heildarmyndin er skoðuð. Það er eitt að segjast vera að byggja upp samgöngur ef heildarmyndin er ekki skoðuð. Ég held til dæmis að það sé rangt að styrkja samgöngur með því að stytta vegi ef það gerir það að verkum að byggðarlög verða afgangsstærð, fara frá meginleiðunum. Ég held að samgöngur eigi meðal annars að hafa það hlutverk að tengja byggðir. Þar er vel þess virði að leggja í einhvern kostnað, það getur verið eðlilegra að kosta einhverju til til að tengja byggðirnar fremur en láta þær leggjast af með því að færa samgöngur frá þeim.

Góðir vegir og góðar samgöngur spara líka fjármuni fyrir þá sem eru að flytja. Þegar vegasamgöngur eru góðar er ódýrara að reka bifreiðarnar en þegar vegir eru slæmir og viðhaldskostnaður mikill, það ætti því að lækka flutningskostnað.

Svo eru það fjallvegirnir, vegirnir inn á hálendið, sem gegna kannski einna helst því hlutverki að vera mikilvægar ferðamannaleiðir að sumri til. Ég hef verið talsmaður þess að vegur yfir Kjöl verði gerður betri og á þeim stað þar sem hann er einna helst þannig að menn geti notið þeirra fallegu leiða sem þar eru, að auðveldara verði að fara þessa leið. Ég held að það sé mjög áhugavert fyrir alla uppbyggingu í ferðaþjónustu, t.d. á Hveravöllum, að slíkt geti orðið fyrir utan það að geta þá tengt Suður- og Norðurland með þessum vegi.

Framtíðarsýn stjórnvalda þarf að sjálfsögðu að vera á þann veg að horft sé langt fram í tímann. Mig langar að nefna eitt mál sem ekki er í samgönguáætlun en tengist henni engu að síður, ég hefði gjarnan viljað sjá það þar inni en kannski kemur það inn síðar. Ég held að skoða eigi það af fullri alvöru að byggja upp varaflugvöll fyrir Reykjavík, Akureyri og Austurland í Skagafirði, á Sauðárkróki þar sem búið er að skoða það mjög lengi að laga flugvöllinn þar.

Rökin fyrir þessu eru margvísleg. Í fyrsta lagi er ekki nema eins og hálfs tíma akstur milli Sauðárkróks og Akureyrar í mesta lagi komi til þess að ekki sé hægt að lenda á Akureyri og ég er mjög fylgjandi því að byggð verði upp aukin ferðaþjónusta í gegnum Akureyrarflugvöll. Helst vildi ég sjá þar meira af millilandaflugi þannig að hægt væri að flytja ferðamenn beint inn á Norðurlandið. Til þess væri mjög snjallt að byggja upp varaflugvöll sem gæti þjónað Akureyrarflugvelli en um leið Reykjavíkurflugvelli því að næsti varaflugvöllur fyrir Reykjavík er annaðhvort Akureyri eða Egilsstaðir. Það sparar umtalsverðan tíma í akstri, sé ekki hægt að lenda í Reykjavík eða Keflavík, ef slíkur flugvöllur yrði byggður upp. Einnig er þá um færri fjallvegi að fara ef lenda þarf einhvers staðar annars staðar.

Við sjáum til dæmis að þegar eldgosið var voru flugvélar að lenda á Egilsstöðum og þurfti að keyra þá farþega í rútum til Reykjavíkur. Auðvitað tókst það allt ágætlega en hugsanlega hefði verið hægt að lenda nær Reykjavík og stytta þá þetta ferðalag og spara þar af leiðandi einhverja peninga í rútuakstri og þess háttar. Engu að síður er ég alls ekki að segja að höggva eigi í Egilsstaði. Sá flugvöllur er gríðarlega mikilvægur því að vitanlega getur sú staða komið upp að ekki sé hægt að lenda neins staðar á Norðurlandi eða á höfuðborgarsvæðinu, t.d. ef eldgos er og öskufjúk. Þá þurfum við að hafa flugvöll fyrir austan auk þess að sinna millilandaflugi af Austurlandi til útlanda ef það er inni í myndinni.

Flestar þær athuganir sem gerðar hafa verið mæla mjög með því að þetta sé gert, þ.e. vítt er til veggja og gott aðflug á þessum stað. Það er vel hægt að gera þetta, þetta er líklega kostnaður upp á 1–2 milljarða. Það kostar auðvitað peninga að ráðast í slíkar framkvæmdir en ég tel mikilvægt að koma þessu máli á hreyfingu, byrja að skoða þetta. Við þurfum líka að spyrja okkur hvað gerist ef flugvellirnir í Reykjavík og Keflavík lokast, t.d. vegna jarðhræringa eða eldgoss. Við erum á jarðhræringasvæði í Reykjavík og hér á höfuðborgarsvæðinu og ef ekki er hægt að fljúga hingað hvert er þá styst að fljúga til að halda uppi samgöngum við svæðið? Þetta eru hlutir sem þarf að taka inn í myndina og vil ég koma þeim á framfæri þannig að þetta komist á blað svo að menn geti kannski skoðað þetta í framtíðinni. Það kann vel að vera að ég leggi fram þingsályktunartillögu í haust um að hreyfa enn frekar við þessu máli.

Herra forseti. Samgönguáætlanirnar sem hér eru til umfjöllunar marka stefnu stjórnvalda til framtíðar. Ljóst er að verið er að gera ákveðnar breytingar á áætlunum milli umræðna og ætla ég aðeins að geyma mér að fara í gegnum einstakar tillögur. Ég þarf að fá tíma til að kynna mér það aðeins betur svo að ég geti farið af einhverju viti ofan í þær. En mér sýnist að þær séu flestar í þá átt að bæta úr þeim ágöllum sem ég hef nefnt í ræðu minni varðandi ákveðna vegi og kafla sem setið hafa eftir. Um leið og samgöngur eru mikið byggðamál, eins og ég nefndi áðan, fyrir þá sem búa úti á landi, búa í byggðunum sem þurfa að tengjast, eru þær að sjálfsögðu líka gríðarlegt atvinnumál þegar litið er til ferðaþjónustunnar hvort sem er yfir sumar- eða vetrarmánuðina. Yfir sumarmánuðina erum við sem betur fer með landið allt meira og minna undirlagt af túristum sem koma hingað til lands á eigin bílum, rútum eða leigja sér bíla, fara á hjólum eða gangandi. Það er skylda okkar að vera með gott vegakerfi til að tryggja aðgang þessa fólks að okkar fallega landi og einnig að tryggja öryggi þess. Ég held að víða sé pottur brotinn þegar kemur að öryggismálunum. Forgangsröðunin þarf að sjálfsögðu að vera til staðar.

Fyrr í dag var fjallað um mál sem ég tók engan þátt í að ræða, um Vaðlaheiðargöng. Gangagerð er að sjálfsögðu mikilvægur þáttur í samgöngum okkar. Eins og ég hef áður sagt varðandi þá framkvæmd þá finnst mér að menn hafi farið að hræra í pottinum, hvernig ætti að fara í framkvæmdina, í staðinn fyrir að ganga bara hreint til verks og segja hvernig það ætti að vera. Það er hins vegar mikilvægt að önnur verkefni líði ekki fyrir þessa framkvæmd. Því hefur verið haldið fram af stuðningsmönnum Vaðlaheiðarganga að svo sé ekki. Ég treysti á að þeir hjálpi öðrum þingmönnum þá við að sjá til þess að svo verði ekki. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þeir ágætu aðilar viti ekki hvað þeir eru að tala um.

Þau göng sem mest er um vert að farið verði í í Norðvesturkjördæmi eru Dýrafjarðargöng. Ég vona svo sannarlega að við getum öll lagst á árarnar með að hraða þeim eins og kostur er. Þetta er hluti af því að tengja saman byggðirnar á Vestfjörðum. Þetta er að mínu viti, ég segi það hreint út, sjálfsagður hlutur. Horft er á þetta svæði sem eitt atvinnusvæði jafnvel, þjónustusvæði, Vestfirðina, og fólk verður að sjálfsögðu að geta komist þar á milli. Það gengur ekki að segja við fólk að það eigi að sækja sér löggæsluþjónustu eða eitthvað annað um 700 kílómetra leið eða hvað það er. Það þarf að bæta aðeins úr og ég treysti því, herra forseti, að það verði gert þegar farið verður í að skoða þessi gangamál öllsömul.

Ég hef farið á hundavaði yfir nokkur álitaefni varðandi samgöngumál og samgönguáætlunina, mun geyma mér að fara í einstakar tillögur og breytingartillögur þar til síðar. Ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.