140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[16:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar keyrt er um landið og jafnvel á nýlegum vegum sem ekki er langt síðan byggðir voru upp, þá velti ég því fyrir mér hvort vandað hafi verið nóg til undirbúnings margra þessara framkvæmda — ég efast nú ekki um að svo hafi verið gert, að menn hafi verið að vanda sig við það. En þá kemst ég að þeirri niðurstöðu að umferðin sé einfaldlega miklu meiri um marga af þessum vegum en menn gerðu ráð fyrir og langar mig að nefna veginn um Þverárfjall, Þverárfjallsveg, sem er tiltölulega nýr vegur, er reyndar heldur mjór á köflum en lagast svo. Sá vegur er allur meira og minna í hólum og hæðum í dag þrátt fyrir að vera mjög nýlegur, þannig að bílar eru í loftköstum á sumum köflum á veginum auk þess sem slitlagið gengur hreinlega upp því að undirlagið virðist ekki vera nógu gott. Bílstjórar sem keyra þungaflutninga tala um að þeir finni hvernig vegurinn dregur niður í bílnum hreinlega, það sé svo mjúkt undir. Þá veltir maður fyrir sér hvort umferðin sé einfaldlega bara allt of mikil og álagið á þá vegi allt of mikið.

Ef niðurstaðan er sú þá komumst við að sjálfsögðu að því að mikilvægt er að setja meiri fjármuni í að halda vegunum við og laga þá vegi sem eru í slíku ásigkomulagi. Þegar við erum í raun komin með þessa staðfestingu sem við mörg höfum haldið fram, frá til dæmis vegamálastjóra og fleirum, þeim sem eru sérfræðingar í þessu, þá hljótum við að spyrja okkur: Þarf ekki að gera ráð fyrir meiri fjármunum núna strax? Það er hárrétt sem sagt hefur verið að ef við látum vegina eyðileggjast, ef við látum þá drabbast niður, niður fyrir ákveðið viðmið, ákveðna línu, er mun dýrara að gera við þá eða halda við en ella. Ég er því svolítið hissa á því að meiri hlutinn skuli ekki gera meira úr þessu og sjá til þess að tryggðir séu meiri fjármunir í viðhald á vegum.