140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[16:40]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt hér tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011–2022 og tillögu til þingsályktunar 2011–2014 fyrir málefnalegar umræður og margt fróðlegt. Berlega kemur í ljós að allir þingmenn eiga það sameiginlegt að samgöngur eru áhugamál þeirra. Samgöngur eru yfir og allt um kring og allir eru sammála um það að þær skipti sköpum fyrir samfélögin sem byggja þetta land. Það er sérstaklega ánægjulegt að finna einhug hv. þingmanna sem nær allir hafa nefnt ástand samgöngumála, þá helst vegamála á Vestfjörðum.

Ástand vegamála á Vestfjörðum hefur verið í umræðunni, eins og ég sagði, til margra ára. Það er ómetanlegt að hv. þingmenn skuli lýsa því yfir að það kalli á verulegar úrbætur umfram aðra landshluta. Hér hafa flestir í dag nefnt Árneshrepp sem dæmi. Ég get tekið heils hugar undir að bæta þarf í og laga samgöngur þangað sem fyrst.

Mig langar í upphafi ræðu minnar að þakka fyrir og fagna þeim framkvæmdum sem nú eru farnar af stað á Vestfjarðavegi 60 á kafla sem við köllum Kjálkafjörður/Eiði. Það er mjög ánægjulegt að sjá verktaka koma sér þar fyrir og hefja störf. Eftir þrjú ár munum við aka þar um veg á bundnu slitlagi með þverun tveggja fjarða og vegalengdin mun styttast um heila átta kílómetra sem nú er 24 kílómetra kafli. Það munar um minna.

Ég nefndi hérna að um nokkurra ára skeið hafa bæði þingmenn og ríkisstjórn þessa lands talað um að vegamál á Vestfjörðum kalli á sérstakt átak og verulegar úrbætur. Því höfum við kallað eftir því að þeim orðum fylgi efndir. Vil ég þá nefna sérstaklega og tala um umsagnir sveitarfélaganna á Vestfjörðum, sem sendar voru inn við meðhöndlun málsins í umhverfis- og samgöngunefnd, um þær þingsályktunartillögur um samgönguáætlanir sem við ræðum og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þar ber helst að nefna, fyrir utan náttúrlega það sem ég nefndi áður, þrjú svæði sem út af standa. Þau eru Árneshreppur, Vestfjarðavegur 60 og Gufudalssveit og Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng. Þetta eru þeir kaflar sem eftir eru í grunnþjóðveganeti landsins og einu malarvegirnir sem liggja inn á hringveginn og milli þéttbýlisstaða á öllu landinu.

Mér telst til að það séu 15 ár síðan sveitarfélög á Vestfjörðum settust niður á fjórðungsþingi og tóku ákvörðun um að sameina stefnumörkun sveitarfélaganna í samgöngumálum. Þetta voru mikil tímamót. Á fjórðungsþingi 1997 var einmitt meginlínan dregin í grófum dráttum og stefnt að því að ljúka uppbyggingu Djúpvegar 61 og Vestfjarðavegar 60 inn á hringveginn, þjóðveg 1, og skyldi sú uppbygging vera unnin samhliða. Þá skyldi ráðist í það verkefni að tengja norður- og suðursvæði Vestfjarða.

Eins og við vitum er uppbyggingu Djúpvegar lokið, en Vestfjarðavegurinn á ansi langt í land inn á hringveginn. Þá stendur Gufudalssveitin út af. Ég veit að hv. þingmenn þekkja þá sorgarsögu sem staðið hefur yfir í að verða 12 ár varðandi þau málefni og í hvaða ógöngum menn lentu. Það er skrýtið að geta í raun vísað í bréfaskriftir og ályktanir sem eru orðnar um 15 ára gamlar og að þær eigi að fullu leyti við í dag. Sú flækja sem þessi málefni hafa verið í er með ólíkindum. Við höfum kallað eftir að á þann hnút verði höggvið.

Nú liggja fyrir þessar samgönguáætlanir, 2011–2014 og 2011–2022, en við höfum beðið í þó nokkurn tíma eftir langtímaáætlun. Upprunalega áætlunin gerir ráð fyrir því að framkvæmdum sem ég hef talið upp áður á Vestfjarðavegi 60 verði ekki lokið fyrr en á síðasta tímabili langtímaáætlunar eða síðar. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt fyrir tillögu þar sem gert er ráð fyrir að þessum framkvæmdum ljúki á þriðja tímabili, 2015–2018, og er það vel. Mér sýnist að á því tímabili sé gert ráð fyrir 850 milljónum á Dynjandisheiði og þeirri vegagerð ljúki á fjórða tímabili.

Virðulegi forseti. Það er eindregin skoðun þeirrar sem hér stendur enda alltaf talsmaður þess að eitt mikilvægasta verkefni í samgöngumálum á Vestfjörðum sé að tengja byggðirnar saman. Ég hef lýst þeirri skoðun minni margoft og stend fyllilega við hana. Ég hef í reynd aldrei skilið að ekki skyldi haldið áfram 1996 þegar göngin undir Breiðdalsheiði komu, að við settum ekki stefnumörkunina í þá átt.

Fregnir af sunnanverðum Vestfjörðum við tilkynningu um breytingartillögu þess efnis að flýta eigi þessum framkvæmdum hafa óneitanlega sett margt í uppnám. Að vissu leyti er um misskilning að ræða. Það sem mig langar aðeins að fara yfir hér eru skilaboð til umhverfis- og samgöngunefndar. Ég fagna því eindregið að framsögumaður meiri hlutans sé í salnum og geti komið þeim skilaboðum til nefndarinnar að enn er mikil óvissa uppi með vegagerðina í Gufudalssveitinni. Ég sagði hér í upphafi að órofa samstaða hefði verið milli sveitarstjórnarmanna og fjórðungsþings og Fjórðungssambands Vestfirðinga um þá forgangsröðun sem ég fór yfir, en fólk upplifir óvissu vegna Gufudalssveitarinnar. Frá því í nóvember, þegar sú sem hér stendur fékk síðast tækifæri til að koma inn á Alþingi Íslendinga og átti samtal við innanríkisráðherra, hefur ekkert gerst. Við höfum ekki fengið upplýsingar um hvernig málin standa. Í nóvember fengum við þær upplýsingar að matsáætlunin fyrir Gufudalssveitina ætti að vera tilbúin um áramót. Hún hefur ekki enn litið dagsins ljós. Því er það eindregin beiðni og skilaboð til umhverfis- og samgöngunefndar, í ljósi þess að á næstu dögum mun liggja fyrir kostnaðarmat hjá Vegagerðinni varðandi Gufudalssveitina, að fara aftur yfir tillögurnar varðandi þriðja tímabilið og tryggja fjármuni til að klára þá framkvæmd.

Þegar matsáætlun liggur fyrir fer málið í umhverfismat. Kallað hefur verið eftir stuðningi allra þingmanna við það að klára það mál og tryggja fjármuni í verkið. Undirrituð mundi fagna því ótrúlega mikið ef hægt væri að vinna að öllum þessum málum á þriðja tímabili. Það er í raun og veru það sem ég held að allir geti verið sammála um að túlkist sem skýr forgangsröðun. Eins og ég nefndi í upphafi kalla vegamál á Vestfjörðum á verulegar úrbætur umfram aðra landshluta.

Það skýtur skökku við að sjá mögulega göng undir Hjallaháls, eftir því hvaða leið verður fyrir valinu, á fjórða hluta samgönguáætlunar. Ekki er gerð tillaga um að þeim sé flýtt. Ekki er bætt fjármunum í þriðja hluta til að tryggja að Gufudalssveitin klárist. Þetta legg ég áherslu á og bið ég, virðulegi forseti, þingmenn um að sýna því skilning að koma þessu máli að.

Á næstu dögum eftir þeim upplýsingum sem ég fæ, eins og ég sagði áðan, mun kostnaðarmat vegna veglína liggja fyrir. Ég hvet nefndina til að kalla eftir þessu kostnaðarmati og tryggja að fjármunir fari á þriðja hlutann, 2015–2018.

Varðandi það sem ég sagði um Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng væri mjög ánægjulegt ef þau verk yrðu unnin samhliða. Ég mundi ég vilja að það yrði skoðað — í mínum huga eru þessi verk algjörlega órjúfanleg — að göngin og vegur yfir Dynjandisheiði verði unnin samhliða til þess að samgöngubótin virki og þessi tenging komist raunverulega á á milli norður- og suðursvæðis. Við þurfum að tryggja það.

Mér sýnist talað um í þessari tillögu að Dynjandisheiðinni verði flýtt, en hún fer yfir á fjórða tímabil áætlunarinnar og lengra. Það er visst ósamræmi í texta í 13. tölulið og svo tölulegri samsetningu í breytingartillögu. Nú má ekki, eins og ég tók skýrt fram, misskilja mig þannig að ég fagni því ekki að hægt sé að flýta framkvæmdum. Ég endurtek það örugglega í þriðja sinn í þessari ræðu að óskastaðan er að sjá þær framkvæmdir sem hér hafa verið nefndar klárast á tímabilinu 2015–2018 og í raun og veru er það löngu tímabært eins og þingheimur hefur lýst yfir að allir séu sammála um.

Ég bendi á forgangsröðun sveitarfélaganna sem hefur verið unnið eftir síðan 1997. Ég kalla eftir því að kostnaðarmat liggi fyrir. Mér sýnist að á þriðja hlutanum þurfi að bæta við 3 milljörðum, að vegalagning kosti um 6 milljarða.

Mig langar að ræða aðeins, vegna þess að við erum að ræða Gufudalssveitina í þessum samgönguáætlunum, að komið hefur fram og fjallað hefur verið um þá gagnrýni að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafi ekki tekið því tilboði innanríkisráðherra fagnandi að fara yfir fjallvegi. Í því sambandi langar mig að benda á að í stefnumótun samgönguáætlunar, 12 ára áætlunar, eru mjög skýr markmið sett fram. Það vil ég meina að eigi fyllilega við þegar við erum að tala um vegagerð í Gufudalssveit. Í stefnumótun samgönguáætlunar eru markmið um greiðari samgöngur þar, markmið um hagkvæmar samgöngur, markmið um umhverfislegar og sjálfbærar samgöngur og losunarheimildir nefndar sérstaklega. Allir átta sig hins vegar á að ef ekið er yfir fjallvegi verður umtalsvert meiri losun úrgangsefna frá bifreiðum en ella. Einnig er talað um markmið um öryggi í samgöngum, sem vissulega á við þar, og markmið um jákvæða byggðaþróun. Þá erum við komin að því atriði sem skiptir að mínu mati og þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað mestu máli, þ.e. að samgöngur eru undirstaða byggðar landsins.

Síðan er kafli um forgangsröðun framkvæmda. Ég held að þeir töluliðir sem þar eru taldir upp eigi fyllilega við, að þessar framkvæmdir á Vestfjörðum verði settar í algjöran forgang og staðið við yfirlýsingar í þeim efnum.

Allt þetta kostar mikla peninga. Undirrituð áttar sig óskaplega vel á því. Þá spyr fólk sjálfsagt um fjármögnun og hvernig hún eigi að koma til. Vegagerð á Vestfjörðum er kostnaðarsöm. Þar er 40% af strandlengju landsins. Þar sem við viljum fara um láglendi lengir það að sumu leyti leiðir, en sem betur fer styttir það leiðir í flestum tilvikum að fara yfir firði frekar en fjöll.

Ég ætla að nefna tvennt varðandi forgangsröðunina. Það er að orðum fylgi efndir. Það verða að fylgja efndir þeim orðum að vegamál á Vestfjörðum kalli á verulegar úrbætur umfram aðra landshluta.

Þá lagði hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson til hér fyrr í dag að landsmenn allir fengju álíka mikið fyrir skattpeninginn. Mér finnst þetta áhugaverður punktur. Hvað færi þá til samgöngubóta um land allt? Ég held að það sé nokkuð sem þarf að skoðast.

Eins og ég nefndi vorum við með umsagnir sem ég fór yfir frá sveitarfélögum og Fjórðungssambandi Vestfirðinga varðandi þessar framkvæmdir. Nú háttar svo til á sunnanverðum Vestfjörðum að við sjáum þar jákvæð teikn í atvinnuuppbyggingu. Ferðaþjónustan hefur verið öflug um margra ára bil, en samgöngumál hafa háð greininni eins og annarri atvinnustarfsemi á svæðinu með tilheyrandi flutningskostnaði og öðru sem honum fylgir. Núna stöndum við frammi fyrir því sem er virkilega jákvætt að íbúum fjölgar hægt og bítandi og atvinnutækifærum fjölgar með uppbyggingu á eldi á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar koma fyrirtæki inn með gríðarlegar fjárfestingar og munu byggja upp atvinnustarfsemi sem kalla á mikla flutninga til og frá staðnum. Ástand vegamála skiptir gríðarlega miklu máli varðandi framtíðarplön þeirra þannig að hvort tveggja haldist í hendur. Við heyrum þetta í umræðunni varðandi Austfirðina, Norðfjarðargöngin, að þar hái þetta einni stærstu útflutningshöfn landsins og þetta hái þar samstarfi og samgöngum innan sveitarfélags. Það er því gríðarlega mikil pressa, hafi nokkurn tímann verið mikil pressa er það núna. Byggja þarf upp þennan veg, tenginguna inn á hringveginn.

Þá kem ég inn á það er varðar atvinnuuppbyggingu að ekki er áætlað mikið fé í Bíldudalsflugvöll, ég sé svo sem að það á við um fleiri innanlandsflugvelli hér á landi. Lenging Bíldudalsflugvallar hefur verið brýnt mál. Má nefna í því samhengi að yfirleitt er fullbókað í flugið, sem er ánægjulegt, en það eru fast níu sæti vegna þess að völlurinn er ekki nógu langur til að taka fulla vél af farþegum og farangri.

Í lokin langar mig að taka undir með mörgum hv. þingmönnum sem hafa talað á undan mér um að tryggja fé í viðhald og vetrarþjónustu, sem og tengivegi. Eins og ég sagði vitum við öll hvað greiðar samgöngur þýða fyrir allt landið, en það vantar náttúrlega alltaf peninga. Það er kannski það sem málið snýst um að tryggja þá forgangsröðun sem kallað er eftir, m.a. í langtímasamgönguáætlun.

Ég vil nota síðustu sekúndurnar í að skora á alþingismenn og umhverfis- og samgöngunefnd að virða forgangsröðun varðandi Vestfjarðaveg 60 og taka málefni vegagerðarinnar í Gufudalssveit föstum tökum, styðja íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum í því og tryggja þar fjármuni.

Að lokum: Samgöngur eru sú grunngerð sem okkur vantar. Þegar grunngerðin er komin treystum við því að þessi hluti, sunnanverðir Vestfirðir, rísi með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu.