140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem ekki hingað upp til að andmæla orðum hv. þm. Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur vegna þess að ekki er um neinn skoðanaágreining að ræða. Samgöngunefnd hefur tekið til ítarlegrar umræðu ástand samgöngumála á Vestfjörðum. Eins og sjá má af þeim breytingartillögum sem gerðar eru við samgönguáætlun er ríkur vilji til þess innan nefndarinnar að taka tillit til aðstæðna á Vestfjörðum. Eins og skýrt er tekið fram í nefndaráliti eiga Vestfirðir að njóta ákveðins forgangs núna einmitt vegna þess að þar er ákveðin vöntun á grunnnetinu sem á auðvitað að vera það sem er í forgrunni, að ljúka við að koma samgöngum á áður en maður fer að bæta þær mikið.

Athugasemd hv. þingmanns varðandi Dynjandisheiðina er auðvitað fullkomlega réttmæt. Mér finnst alveg ástæða til að samgöngunefnd skoði það núna — við eigum eftir að fjalla um áætlunina á einum fundi enn — í samráði við Vegagerðina hvort möguleiki sé að færa framkvæmdir Dynjandisheiðarinnar enn framar en gert er ráð fyrir í breytingartillögunum og þá fyrst og fremst með það að markmiði að þær geti hafist af alvöru samhliða Dýrafjarðargöngum, því að það er jú stefnumótun samgöngunefndar eins og má skýrt sjá af nefndarálitinu. Það er eðlilegt að við tökum þetta til álita á þeim fundi sem við eigum eftir að halda um áætlunina áður en hún verður afgreidd héðan endanlega.