140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[17:05]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hennar.

Ég veit ekki hvort má kalla það — það er nú örugglega ekki misskilningur okkar á milli, það er enginn skoðanaágreiningur eins og hv. þingmaður sagði varðandi vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. En vegna þeirrar óvissu þegar samgönguáætlun var lögð fram varðandi leiðarval um Gufudalssveitina eru áætlaðir þar 3,2 milljarðar en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef vegna þessarar niðurstöðu, sem varð meðal annars af umræðum sem ég átti við innanríkisráðherra í nóvember, væru ákveðnar leiðir úti, og ljóst að meiri fjármuni vantar inn á þetta þriðja tímabil til að tryggja þá leið sem verður fyrir valinu. Allir aðrir kostir samkvæmt matsáætlun eru dýrari. Það er nú einungis það sem ég vildi leggja áherslu á og er að biðja nefndina að fara aðeins yfir vegna þess að óvissan var. Það stendur í texta í frumvarpinu að vegna óvissu um þetta leiðarval er áætlaðir 3,2 milljarðar en það er í raun og veru ekkert í hendi nema vegna þeirrar leiðar sem var á áætlun áður og við vitum og hv. þingmaður veit að er úti. En við erum að horfa til dýrari vegaframkvæmda til þess að koma á láglendisvegi þar.

Það er eindregin ósk mín svo ég ítreki hana enn að hv. þingmaður fari með þau skilaboð inn í nefndina og setjist yfir það ásamt öðrum málum.