140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því mjög að þetta mikilvæga mál er komið hingað til lokaafgreiðslu og ég þakka velferðarnefnd og nefndarritara kærlega fyrir gott samstarf í málinu. Þetta er þannig lagabálkur að margir hafa mjög sterkar skoðanir á einstökum ákvæðum hans. Ég held að nánast allir sem komu að þessari vinnu hafi þurft að gefa eitthvað eftir af sínum ýtrustu kröfum, en það er góð niðurstaða sem blasir við okkur og þetta eru stór framfaraskref sem við erum að stíga.

Ég held að mikilvægast sé í framhaldinu að við höldum áfram að þróa það tvennt sem er stærst í þeim breytingum sem við erum að gera núna, þ.e. annars vegar sáttameðferðin og hins vegar heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá, og að við höfum virkt þróunarstarf í þeim efnum á komandi árum. Svo held ég að það sé mjög mikilvægt að næsta skref í þessum málaflokki sé að taka upp eitthvað sem heitir jöfn búseta eða tvöfalt lögheimili til að mæta (Forseti hringir.) þeirri staðreynd að mörg börn búa í þjóðfélaginu í dag á tveimur stöðum og það gengur vel.