140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[18:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með að við séum í þann veginn að samþykkja ný barnalög en með þeim lögfestum við grunngildi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stígum mikilvæg framfaraspor í þágu barna. Frá því að ég lagði þetta frumvarp fram hefur það hins vegar tekið breytingum sem ég tel vera til hins verra.

Í fyrsta lagi hefur Alþingi, að undirlagi velferðarnefndar, ákveðið að rétt sé að veita dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Ég tel ekki rétt að fara með deilur um líf og heill barna inn í þann átakafarveg sem dómsmál óhjákvæmilega eru. Blessunarlega eru fá forsjármál sem rata til dómstóla og enn færri sem enda með dómi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir stóraukinni sáttameðferð fyrir foreldra sem deila. Það tel ég vera hinn rétta farveg og að reyna eigi á hann áður en tekin er ákvörðun um að heimila dómurum að þvinga fólk til samvinnu með dómi. En sú heimild og reynsla af henni annars staðar frá er mjög umdeild.

Í öðru lagi finnst mér forkastanlegt að Alþingi vilji viðhalda þeim lagaákvæðum sem heimila að lögregla (Forseti hringir.) sé send inn á heimili barns til að koma á umgengni. Þetta gengur þvert á athugasemdir samtaka sem starfa að mannréttindum barna.