140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

barnalög.

290. mál
[18:23]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Velferðarnefnd hefur í allan vetur unnið að breytingum á barnalögum sem Alþingi er nú um það bil að samþykkja í endanlegri mynd. Það hafa vissulega verið mjög skiptar skoðanir um einstök atriði og ég vil taka undir það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, framsögumaður málsins, sagði áðan, að þar hafa allir þurft að gefa eitthvað eftir.

Ég tók eftir því að við 2. umr. málsins, sem ég gat því miður ekki verið viðstödd, voru þingmenn sammála, þ.e. það voru ekki mótatkvæði við umdeildustu atriði frumvarpsins og það tel ég að sé vel. Og vegna þess sem hæstv. innanríkisráðherra sagði um dómaraheimildina vil ég ítreka að í nefndaráliti og reyndar í orðalagi ákvæðisins kemur mjög skýrt fram að henni skuli beitt á mjög takmarkaðan hátt.