140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hönnun velferðar- og skattkerfisins á Íslandi á sér því miður stað utan Alþingis hjá aðilum vinnumarkaðarins að miklu leyti. Það mál sem við greiðum nú atkvæði um er einn angi af því. Auðvitað ætti Alþingi að sinna því meira að þróa velferðarkerfið.

Það kerfi sem hér er um að ræða er mjög mikil réttarbót fyrir öryrkja. Endurhæfing hefur verið mjög lítil í kerfinu. Það hefur meira verið horft á hvað fólk getur ekki en hvað það getur. Og ég vona að þessi lagasetning leiði til þess að endurhæfing verði miklu virkari, fólk tengist vinnumarkaðnum aftur eða losni aldrei frá honum og öryrkjar fái vinnu í samræmi við þá getu sem þeir hafa. Ég vona að þetta verði öryrkjum landsins til góðs til framtíðar og segi já.