140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason þekkir eins og ég vísuna „Ef að nú hjá pabba einn fimmeyring ég fengi“ þar sem lítil stúlka lýsir því að hún ætli að kaupa allt sem hugurinn girnist fyrir fimmeyring. Þó að veiðileyfagjaldið sem hæstv. ríkisstjórn hefur áhuga á að leggja á sé enginn fimmeyringur heldur töluvert margir fimmeyringar þá er ekki hægt að eyða þeim margoft í allt sem hugurinn girnist. Verður fróðlegt að sjá þegar upp er staðið við hvaða fyrirheit stjórnarliðar geta staðið, hvaða gulrót þeir veifa af öllum þeim sem nú er veifað framan í landsmenn á hinum og þessum sviðum og tengjast umræðunum um veiðileyfagjald. Það gæti orðið mjög fróðlegt að sjá úttekt á því.

Verja á þessum peningum í að laga stöðu ríkissjóðs, er það ekki? Það á að verja háum fjárhæðum í það. Fjárlögin gera ráð fyrir að töluvert háar upphæðir innheimtist af veiðileyfagjaldi, 11 milljarðar ef ég man rétt. Þá er ekki gert ráð fyrir neinum af þeim viðbótarútgjöldum sem hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa talað um, bæði nú og á fyrri dögum, í sambandi við öll þau góðu mál sem á að nota veiðileyfagjaldið í að fjármagna. Þannig að allt er það nú mjög ótraust eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason bendir á.

Varðandi þá spurningu sem við þurfum að átta okkur á, í sambandi við tengslin milli gjaldstofns annars vegar og útgjalda hins vegar, vil ég leyfa mér að skoða það með dálítið opnum huga. Ég skil vel að þeir sem berjast fyrir hagsmunum bifreiðaeigenda, sem reyndar er nú allstór hluti landsmanna, (Forseti hringir.) Bílgreinasambandið og aðrir slíkir, bendi á að miklu hærri upphæðir innheimtast af bifreiðum og umferð en varið er til vegamála. (Forseti hringir.) Ég er hins vegar ekki viss um að við getum lagt alveg svo einhlítan mælikvarða á hlutina að allir skattar vegna umferðar eigi að fara til vegamála, ekki frekar en að allir skattar (Forseti hringir.) af áfengi eigi að fara til áfengisvarna eða eitthvað þess háttar.