140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[19:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru allt réttmætar ábendingar. Veltum því í fyrsta lagi fyrir okkur hver staðan er á þessum breytingartillögum. Þær eru komnar fram jafnvel þó að frumvarpið um veiðigjöld sé óafgreitt og ætlast er til þess að við hér í þinginu tökum afstöðu til þessara breytingartillagna og afgreiðum þær áður en fyrir liggur hvernig frumvarpið um veiðileyfagjald fer, þ.e. hvort það verður samþykkt og hve hátt gjald næst inn með því gjaldi sem verður samþykkt. Ætlast er til þess að við gerum þetta í þessari óvissu.

Þá vaknar auðvitað spurningin: Er það rétt, sem sumir hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa sagt, að hækkunin og flýting þeirra framkvæmda sem felast í breytingartillögunum við samgönguáætlunina sé raunverulega skilyrt hækkun veiðileyfagjaldsins eða samþykkt veiðileyfagjalds frumvarpsins? Er það svo í raun og veru? Er það svo að þeir hinir sömu séu tilbúnir að koma hingað í ræðustól Alþingis og segja að ef veiðileyfagjaldsfrumvarpið verði ekki samþykkt verði þessar hækkanir til samgöngumála dregnar til baka? Eru þeir tilbúnir til þess? Það væri gaman að vita það. Ég veit að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason getur ekki svarað því, en það væri gaman ef við þessa umræðu kæmu fram skýrari yfirlýsingar um það hvort um raunverulega skilyrðingu sé að ræða, hvort menn ætla sér raunverulega að tengja þessi mál saman með þeim hætti að ef veiðileyfagjöldin nái ekki fram að ganga verði ekki farið í þessar auknu framkvæmdir á sviði vegamál.

Er það þannig? Er það alveg kristaltært að það er þannig sem menn hugsa? Ef það er ekki þannig sem menn hugsa, ef menn ætla sér ekki að draga til baka breytingar á vegáætluninni ef veiðileyfagjaldið nær ekki fram að ganga, eru menn að segja ósatt þegar þeir segja að til þess að hægt sé að fara í vegaframkvæmdirnar þurfi að hækka veiðileyfagjaldið. Menn þurfa að ákveða hvora línuna þeir ætla að taka. Það er ekki hægt að slá bæði úr og í hvað þetta varðar.