140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Það er alveg rétt eins og hv. þingmaður nefndi að tekjurnar af sköttum eða gjaldtökum á bifreiðar eða samgöngur eru einhvers staðar rétt tæpir 55 milljarðar og eru að skila sér upp á 15,7 milljarða til verkefna á þessu sviði. Þetta er tiltölulega lágt miðað við tekjurnar sem við fáum af þessum gjaldstofni, en það virðist vera sem svo að nokkuð misjafnar reglur eða áherslur gildi í þessum efnum eftir málasviðum. Ég nefni sem dæmi tvær ríkisstofnanir þar sem verið er að vinna með allt öðrum hætti. Fjármálaeftirlitið hefur heimildir til að leggja gjöld á þá aðila sem það þjónar og hefur krafist þess að fá allan þann gjaldstofn eða allar þær tekjur eingöngu til sín. Ef mig misminnir ekki liggur fyrir frumvarp frá menntamálanefnd um Ríkisútvarpið sem gerir ráð fyrir að Ríkisútvarpið fái hverja einustu krónu inn til sín sem lögð er á í nefskatt. Ef menn ætla að fara að feta þá stigu er ekki óeðlilegt að sú krafa komi upp varðandi tekjur af bifreiðum og öðru því um líku að þær verði nýttar í þeim sama tilgangi sem til þeirra var stofnað á grundvelli þeirra laga sem um þessar heimildir gildir.

Ég hallast miklu fremur að því um þessar mundir að við eigum að taka þær tekjur allar inn til ríkissjóðs og deilum þeim þaðan út í ljósi þeirrar stöðu sem ríkissjóðurinn er í.

Hv. þingmaður spyr mig hvort og hversu hátt þetta hlutfall eigi að vera. Því er vandsvarað. Ég er ekki í þeirri stöðu að geta nefnt einhverja prósentutölu. Það sem ég hef mestar áhyggjur af varðandi þá tillögu sem hér liggur fyrir og raunar fjárlögin (Forseti hringir.) fyrir árið 2012 eins og þau liggja fyrir er þessar lágu fjárhæðir sem ætlaðar eru til viðhalds í stofnvegakerfi sem byggt hefur verið upp.