140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[20:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar kemur að viðhaldi samgöngukerfisins. Fram kom í samgöngunefnd við vinnslu þessa máls, samgönguáætlunar, að Vegagerðin áætlar að eytt hafi verið innan við 40% af því sem sé algjört lágmark að þurfi að eyða í viðhald samgöngumannvirkja á undanförnum fimm árum. Það er að safnast þarna gríðarlega upp. Menn hafa áhyggjur af því að vegakerfið sé allt að eldast og það muni jafnvel byrja að hrynja á ákveðnum svæðum á sama tíma með gríðarlegum kostnaði.

Mig langar að velta því upp, af því að ég veit að hv. þingmaður kemur af landsbyggðinni, hvort hann telji ekki, í ljósi þess að 21 milljarður eru skatttekjur vegna vörugjalds á eldsneyti, að sú skattheimta, þ.e. eldsneytisskatturinn, (Forseti hringir.) komi hvað verst niður á einmitt þeim sem búa á landsbyggðinni og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur og þurfa oft um langan veg (Forseti hringir.) að fara til þess að sækja vinnu, menntun og fleira.